06.05.1924
Neðri deild: 66. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í D-deild Alþingistíðinda. (3410)

141. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hafði ekki ætlað mjer að lengja þessar umr., en þar sem síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir borið fram jafnstaðlausa stafi og hann nú gerði í ræðu sinni, get jeg ekki látið hjá líða að reka það aftur, þótt komið sje alveg að þinglausnum.

Hv. þm. (JBald) taldi, að tvent hefði verið gert til þess að rjetta við hag bankans: 1. að fella gengi íslenskrar krónu, og 2. að hækka vexti óhæfilega mikið. Það er nú svo. Gengið hefir fallið, en sannarlega er engin sú stofnun til í þessu landi, sem tapar meira á lækkandi gengi en einmitt bankarnir. Það er af þeirri einföldu ástæðu, að þeir eiga nær alt sitt fje í lækkandi lánum innanlands, en vinna að nokkru leyti með erlendu fje og verða að svara til mikilla afborgana af erlendum skuldum, sem haldast í fullu gildi, þrátt fyrir það, að íslensk króna lækki. Þetta gildir t. d. um enska lánið frá 1921. Af hverju þurfti að hækka tryggingarnar fyrir því? Auðvitað vegna þess, að þá þarf fleiri íslenskar krónur til að mæta því, er gengi hinnar íslensku krónu lækkar. Þetta dæmi er auðreiknað, og getur því hv. þm. (JBald) sjeð, hvaða áhrif gengisfall íslenskrar krónu hefir á þetta eina lán, og því meir sem gengið fellur, þess verra verður að standa straum af öllum erlendum skuldum bankans. Að vísu er það satt, að lággengið getur hjálpað viðskiftamönnum bankans til að standa í skilum með skuldir sínar, og er það þá beinn gróði fyrir þá menn, sem skulda meira en þeir eiga til góða útistandandi. En Íslandsbanki á meira til góða útistandandi hjer innanlands en hann skuldar hjer, og er þetta því hreint tap fyrir hann.

Jeg get tekið undir það, að það er ógæfa, að vextir þurfi að vera svona háir hjá okkur. En jeg hygg, að það sje ekki svo auðvelt að ráða við það. Við erum komnir í þetta öngþveiti vegna þess, að báðir bankarnir verða að vinna með erlendu lánsfje, er þeir verða að greiða af mjög háa vexti. Því að bæði lánið frá 1921, og það lán, sem Landsbankinn tók núna í ársbyrjun, eru mjög dýr; jeg hygg það megi fullyrða, að bankarnir verði að greiða raunverulega um 7% af þessum lánum, og þá þarf engum að koma á óvart, þótt útlánsvextir sjeu háir hjer, er bankarnir verða að vinna með svona dýru erlendu fje. Þetta er sú ógæfa, sem leiðir af þeim vandræðum, er vjer höfum ratað í undanfarin ár. Hitt er öllum ljóst, og þarf ekki langan tíma til að reikna það út, að öllum atvinnurekstri er það hagstæðara, að útlánsvextir sjeu hóflegir, eða sem allra lægstir.

Hv. þm. (JBald) sagði, að allar stjórnir undanfarið hefðu staðið með Íslandsbanka. Það er rjett, að þær hafa staðið með báðum bönkunum, Landsbankanum líka, og jeg skal segja hv. 2. þm. Reykv. (JBald) það, að svo mun verða áfram, að allar stjórnir þessa lands, hvaða menn sem þær skipa, og hvaða flokki sem þær tilheyra, munu ávalt standa með peningastofnunum landsins. Því meðan það þjóðskipulag helst, sem nú er, er alt annað óhugsanlegt en að sjá verði um, að þessar stofnanir geti starfað og blómgast, því öll velferð landsmanna er undir því komin, að peningastofnanirnar standi föstum fótum og geti rækt verkefni sitt. Það er ekki við öðru að búast af hvaða stjórn eða hvaða flokki sem er og stjórnina hefir myndað.

Hv. þm. (JBald) bar brigður á, að fjeð væri betur trygt sem lán til bankans, heldur en ef því hefði verið varið til hlutabrjefakaupa og keypt hefðu verið forgangshlutabrjef í bankanum. Þetta er algerlega röng ályktun. Það var aldrei gert ráð fyrir því, að keypt yrðu forgangshlutabrjef, það er ekki eitt orð um það í lögunum, en það kemur engum við. hvað þm. kunna að hafa talað um sín á milli eða utan þings, heldur voru gerðar ráðstafanir til þess, að hlutabrjef bankans væru metin með það fyrir augum, að ríkið keypti þau fyrir matsverð, ef það ráð yrði heldur tekið en að styðja bankann á annan hátt. Hefði til þess verið ætlast, að keypt yrðu forgangshlutabrjef, yrði það að sjást á einhvern hátt í lögunum sjálfum.

En þó svo hefði nú verið, að ríkið hefði keypt forgangshlutabrjef í bankanum, má hv. þm. vita, að allar skuldir ganga líka fyrir forgangshlutabrjefum. Þetta lánsfje væri því miður tryggt en nú er, þó því hefði verið varið til kaupa á forgangshlutabrjefum. Þegar tryggingar eru boðnar, er farið eftir því, hvernig lögin ákveða um það, hverjir skulu ganga fyrir, og er tryggingunum raðað samkvæmt því. En lögin í þessu landi eru nú einu sinni svo, að þau ákveða, að allar skuldir skuli ganga fyrir hlutafjáreigninni, einnig fyrir forgangshlutum. Hjer við bætist svo það, að tekið hefir verið handveð fyrir láninu, svo sú krafa ríkisins gengur einnig fyrir innlánseign annara í bankanum. Þetta er þó óvenjulegt, að innstæður eins innlagseiganda sjeu trygðar umfram innstæður annara. Er hjer því gengið lengra en venja er til með innlög í banka.

Þá vil jeg aðeins bæta því við, sem jeg hefi sagt viðvíkjandi tryggingunum fyrir þessu láni, þótt það ekki beint komi því við, að ríkissjóður skuldar bankanum hreint ekki svo litla upphæð, og eftir almennum viðskiftareglum má svo álíta, að auk handveðsins sje þetta og aukin trygging fyrir láninu. Því að ef til kæmi, að gerðir yrðu upp reikningar milli bankans og ríkisins, mundu þessar upphæðir fyrst verða látnar mætast.