06.05.1924
Neðri deild: 66. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (3411)

141. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Fyrirspyrjandi (Bernharð Stefánsson):

Jeg þakka hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir gefnar upplýsingar, það sem þær ná. Fyrirspurnin var borin fram í tveimur liðum, um það, hvernig þessum tryggingum væri háttað og hversu háar þær væru. Það er að vísu lítið, sem fengist hefir upplýst um fyrri lið fyrirspurnarinnar, en um þann síðari var svarið fullnægjandi. Það svar sýnir, að tryggingarupphæðin er lægri en skuld bankans er nú í íslenskum peningum. En eins og hæstv. fjrh. (JÞ) sýndi fram á í síðari ræðu sinni áðan, má þar við bæta skuld sem ríkissjóður er í við bankann. Út af þessu vil jeg taka það fram, að ef á annað borð það er álitið nauðsynlegt, að ríkið hafi handveð fyrir eign sinni í bankanum, liggur það í hlutarins eðli, að veðið verður að vera eins hátt og sú upphæð er, sem tryggja skal. Vænti jeg því, að þess verði gætt í framtíðinni. Það er ennþá margt, sem um þetta mætti segja, og eins um viðskifti ríkissjóðs við bankann, sem þyrfti upplýsinga við. En það mál liggur nú ekki fyrir að þessu sinni, enda ekki tími til, þótt menn vildu fara að ræða það.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að allar stjórnir hefðu staðið og mundu standa með bönkunum báðum, og er þetta auðvitað rjett, að vissu takmarki, en jeg vildi leyfa mjer að skjóta því fram, að ef það kæmi fyrir, að ekki fjellu saman hagsmunir. t. d. Íslandsbanka, og hagur þjóðarinnar í heild. Þá mun þjóðin krefjast þess, að hæstv. stjórn skipi sjer þeim megin, sem hagsmunir landsmanna eru. (Fjrh. JÞ: Auðvitað.) Jeg segi þetta ekki til þess að deila á neina, en skýt þessu aðeins fram, úr því þetta atriði kom til orða.

Eins og mál þetta liggur nú fyrir, sje jeg svo ekki ástæðu til að orðlengja meira um það.