27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

74. mál, fjáraukalög 1923

Hákon Kristófersson:

Nú fyrst finst mjer ástæða til að þakka háttv. fjvn. frammistöðu sína. Hjer hefir hún gert fyllilega skyldu sína, og vona jeg, að það sje fyrirboði nýrra og betri tíma í fjármálastjórn landsins. Annars gegnir það furðu, að slíkt skuli eiga sjer stað á þessum tímum, að menn búi til reikninga sem þeim sýnist, en stjórnin borgi svo brúsann. Vona jeg, að stjórnin gæti frekari sparnaðar framvegis. — Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) kvað þóknunina hafa verið tekna af þessum mönnum. Það er ekki rjett að orði komist. Þegar þessi nefnd var sett á stofn, þá var það fremur skoðuð heiðursstaða heldur en fjeþúfa. Átti jeg einmitt tal um það við hv. þm. Dala. (BJ), og gerði hann þá ráð fyrir, að launin færu ekki fram úr 500 kr. Held jeg, að yfirleitt hafi þm. þá ekki hugsað sjer, að hærri upphæð kæmi til greina. En þá fyrst kastar tólfunum, þegar þessir menn bregða á leik suður í lönd og taka þó fult kaup fyrir þann tíma, sem sú skemtiferð stendur yfir. — Það þykir mjer og undarlegt, ef svo starfhæfir menn og pennavanir geta ekki annast þessar skriftir sjálfir, heldur þurfa að hafa launaðan ritara með sjer. Vona jeg yfirleitt, að slík firn sem þessi verði ekki mörg á fjármálasviði voru. Jeg ætla ekki að fjölyrða meira um þetta, en jeg óska, að jeg megi vona, að önnur eins firn og þetta sjeu ekki látin viðgangast.