31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (3442)

62. mál, kosningar í bæjarmálefnum Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Aðalatriði þessara laga er ákvörðun kosningarrjettarins, samkvæmt 1. gr. frv. Eins og hv. þdm. vita, fer hann nú eftir lögum frá 1909 og er þar sömu skilyrðum bundinn og kosningarrjettur til Alþingis. Þó er eitt ákvæði, sem snertir sjerstaklega kosningarrjett í bæjarstjórn, sem sje það skilyrði, að kjósandi greiði gjald í bæjarsjóð. En þetta ákvæði er raunar ekki til annars en þess að samræma þennan kosningarrjett við kosningarrjett til Alþingis, með því að svo má líta á, að hver maður greiði nokkuð til ríkisins. En þetta ákvæði verður þá til þess í reyndinni, að það eru ekki alveg sömu menn, heldur nokkru færri, sem hafa kosningarrjett í bæjarstjórn. Nú má segja, að auk þess, sem þetta gjaldaákvæði er í samræmi við kosningalögin til Alþingis, þá er það líka eðlilegt skilyrði, að þeir, sem fara með málefni kaupstaðanna, sem einkum eru fjármál, sjeu þeir sömu menn, sem slá saman í það púkk: að þeir ráðstafi fjenu, sem leggja það til. Hinsvegar er þetta ákvæði orðið þýðingarlítið, því það eru lögð lág útsvör á menn í þeim tilgangi, að þeir haldi kosningarrjetti, en kanske ekki gengið eftir því, að þau sjeu greidd. Þetta eru því hálfgerð formsvik. Nú má segja, að það sje hart að svifta menn kosningarrjetti vegna þess, að þeim sje ekki gert útsvar, en aðrir halda rjettinum, þótt þeir hafi ekki greitt útsvarið. Og hinsvegar er það praktiskt í bæjum eins og Reykjavík, þar sem það er tiltölulega mikið og erfitt verk að semja kjörskrár, að sama kjörskrá geti gilt til bæjarstjórnarkosninga og við kosningar til Alþingis. Þetta er afstaða meiri hlutans í allshn. En í frv. sjálfu er farið fram á að rýmka kosningarrjettinn í bæjarmálum, ekki aðeins til jafns við kosningarrjett til Alþingis, heldur alllangt þar upp fyrir. Það er farið fram á það, að ekki hafi aðeins þeir atkvæðisrjett í bæjarmálum, sem ekki gjalda útsvör í bæjarsjóð, heldur þeir líka, sem úr bæjarsjóði þiggja, ef sá styrkur er veittur ákveðinna orsaka vegna, sem eru: elli, heilsubrestur, ómegð og atvinnuleysi.

Um þetta atriði get jeg sagt það, að tilfinning mín mælir með því, að sú leið sje farin, að strá um sig með ríkmannlegum gjöfum, án þess að krefja til reikningsskapar, hvort þær lendi á verðugum eða óverðugum, sem kallað er. En það er nú svo, að þegar menn fara nokkuð að fást við opinber mál, verða tilfinningarnar að lúta í lægra haldi fyrir því, sem verður að vera. Jeg hefi því ekki sjeð mjer annað fært en fylgjast með meiri hl. í þessu máli. Missir rjettinda er nú orðinn í raun og veru eina ástæðan fyrir menn til þess að forðast sveitarstyrk. Og jeg held, að sá múr sje ekki of hár. Jeg hefi komist að því, að einmitt rjettindamissirinn er ekki svo lítill hemill. Hitt hefir miklu minni áhrif, vanvirðan við að geta ekki bjargast hjálparlaust, eins og sjest af því, að þeir sömu, sem eru að berjast við að þiggja ekki af sveit, þiggja fúsir og glaðir hverja aðra hjálp, sem þeir eiga kost á. Jeg held því, að eins og þessu máli er farið, sje ekki rjett að brjóta þennan síðasta skíðgarð.

Undantekningar þær, sem frv. gerir ráð fyrir, held jeg, að sjeu þannig, að óþægilegt verði að úrskurða, hverjir skuli missa rjettinn og hverjir ekki. Auðvitað mætti ákveða, hve mikla ómegð menn þyrftu að hafa til þess að missa ekki rjettindi við að þiggja af sveit. Undir atvinnuleysið má aftur á móti skjóta mönnum nær því hvernig sem á stendur. Framkvæmdin yrði því sú, að svo að segja allir yrðu undanþegnir rjettindamissi. Það er óviðkunnanlegt að hafa ekkert fast að miða við, óviðkunnanlegra heldur en að svifta alla rjettinum, sem þegið hafa af sveit. Fáeinir verstu ræflarnir, sem svo er kallaðir, yrðu ef til vill skildir úr, og yrði það ennþá átakanlegra fyrir þá en ef allir, verðugir og óverðugir, væru settir undir sama mæliker. Það yrði „paria“- flokkur — flokkur útskúfaðra innan þjóðfjelagsins.

Jeg vil geta þess, að einn af meiri hl., hv. 2. þm. Árn. (JörB), hefir skrifað undir með þeim fyrirvara, að hann vilji, að þeir, sem verða að þiggja af sveit fyrir sakir ómegðar eða heilsuleysis, sjeu ekki sviftir rjettindum. Játa jeg, að þetta er nær sanni. Þó kemur það í bága við praktiskt atriði, þó að það kannske þyki ekki stórvægilegt. Það fyrirbyggir sem sje, að hægt sje að nota sömu kjörskrá.

Aðrar brtt. nefndarinnar eru flestar gerðar til samræmingar, nema sú 5., við 7. gr.

Í frv. er gert ráð fyrir, að þeir geti kosið við bæjarstjórnarkosningar, sem eru fjarverandi. Þetta er mjög óþægilegt og lítt mögulegt að koma því við. Til þess þyrfti að senda kjörgögn til kjörstjórna úti um alt land. Hitt er alveg rjett, að tiltölulega litla fyrirhöfn þyrfti það að kosta, að þeir fengju að kjósa hjá bæjarfógeta, eftir að listar hefðu verið lagðir fram, sem ætluðu að fara að heiman áður en kosningar færu fram. Og væri það óneitanlega rjettarbót, og við höfum því lagt til, að því verði svo hagað.

Ætla jeg svo ekki að fara fleiri orðum um þetta, en fel hv. deild brtt. til bestu fyrirgreiðslu.