31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (3444)

62. mál, kosningar í bæjarmálefnum Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Jeg skal ekki tefja umræður lengi. Ætla aðeins að minnast á nokkur atriði í ræðu hv. frsm. minni hl.

Það má vel segja það, að í kosningalögunum sjeu leifar frá gömlum tímum. En jeg sje ekkert við það að athuga. Við lifum einmitt alstaðar í leifum frá gömlum tímum, og hjá því verður ekki komist. Við getum ekki tekið alt í einu stökki frá því liðna til hins ókomna. Við þokumst hægt og hægt áfram. Og þó að brtt. hv. minni hl. verði samþyktar einhverntíma, þá er ekki ástæða til að samþykkja þær nú. Jeg viðurkenni fyllilega, að það sje satt, að leiðinlegt sje að þurfa að straffa fátæklingana með rjettindamissi. En straffið kemur víðar fram við okkur. Jeg held, að mjer sje óhætt að segja, að það komi fram á öllum sviðum. Menn hafa ekki íhlutunarrjett um meðferð þess fjár, sem þeir eiga ekki; þeir eiga ekki atkvæðisrjett í fjelögum, þar sem þeir eiga ekkert í. Og það má líta svo á, sem þeir, er ekkert leggja í sveitarsjóðina, eigi ekkert í þeim og hafi því ekki rjett til að hlutast til um, hvernig fje þeirra er varið. Meðan eignarrjetturinn er viðurkendur, er þetta eðlileg skoðun. Jeg lít líka svo á, að ekki sje heppilegt að hafa engin takmörk í þessu efni, og hver eiga þá takmörkin að vera, ef ekki þau, að menn stjórni ekki þeim sjóðum, sem þeir þá styrk úr til að lifa, en aðrir leggja í!

Þá vil jeg minnast fám orðum á tvær af brtt. hv. minni hl.

Aldurinn er og verður álitamál, þegar um er að ræða kosningarrjett. Það geta verið skiftar skoðanir um, hvort miða eigi við 21 ár, 25 ár, 30 eða 35 ár. En eitthvert ákvæði verður að vera um það efni. Og þar sem algerlega hlýtur að leika á tveim tungum um það, hvað sje rjettast og heppilegast, þá er best að taka það, sem heppilegast er af öðrum ástæðum, og það er í þessu tilfelli að hafa aldurinn þann sama í bæjarmálefnum og landsmálum, til þess að geta notað sömu skrárnar. Og þess ber að gæta, að ekki tjáir að færa það niður hjer í Reykjavík, nema það sje þá gert um land alt.

Um breytinguna á 3. gr. er það að segja, að jeg lít svo á, sem hún muni vera mjög óheppileg og tefja geysilega við kosningar. Maður þekkir það, að fjöldi manna kemur til kosningaskrifstofanna og segist eiga rjett á að kjósa. En þegar farið er svo að rannsaka málið, þá eru það kannske 2–3 af hverju hundraði, sem eiga rjettinn. Hv. þm. (JBald) sagði, að þetta hefði verið framkvæmt svona við kosningar undanfarið hjer í bænum. (JBald: Já!). Jeg held, að það sje alls ekki rjett, og ef það er satt, þá er það fullkomið lögbrot. Við þingkosningar er þetta að minsta kosti ekki gert. Hitt er satt, að yfirkjörstjórn leiðrjettir á kjördegi, þegar þess er krafist, ef fyrir kemur, að nafn hefir fallið niður af afritum þeim af kjörskránni, sem undirkjörstjórnir nota. Og það kemur mjög oft fyrir. En það er alt annað en hjer er farið fram á. Jeg er líka sannfærður um, að yrði brtt. við 3. gr. samþykt, þá mundi það valda afarmiklum glundroða og óþægindum, og gerir í raun rjettri kjörskrána að einskisverðu plaggi.

Hitt mætti laga, að kjörskrá yrði lögð fram fyr en verið hefir, svo að mönnum gæfist betur kostur á að fá leiðrjettingu sinna mála í þessu efni.