01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (3458)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Baldvinsson:

Það eru tvær brtt., sem jeg hefi flutt að þessu sinni. Sú fyrri er VII. till. á þskj. 261, um styrk til styrktarsjóðs sjómanna og verkamannafjelaganna í Reykjavík. Jeg flutti líka till. við 2. umr. fjárlaganna, en þar var upphæðin nokkru hærri. Þá lýsti jeg líka allgreinilega starfsemi þessa sjóðs og hversu mikið gagn hann hefir gert þessi fáu ár, sem hann hefir starfað. Er því engin ástæða til að endurtaka það nú. Jeg hafði heyrt á ýmsum þingmönnum, að þeir mundu geta fallist á lægri fjárhæð til sjóðsins en tiltekið var í fyrri till. minni. Nú hefi jeg farið fram á 1500 kr. Fleira er ekki þörf á að taka fram um þessa tillögu.

Hin till. er nr. XIX á sama þskj., um upphæð nokkra til kvöldskóla verkamanna. Bar jeg þá till. einnig fram við 2. umr., en hún fann þá ekki náð fyrir augum hv. deildar. Nú hefi jeg lækkað fjárhæðina úr 500 kr. í 350. Það er nokkru lægri fjárhæð en bæjarstjórn Reykjavíkur hefir ætlað sama skóla eftir fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár. Jeg hefi lýst þessum skóla, fyrirkomulagi hans og ætlunarverki. Vænti jeg þess, að hv. þingmenn samþykki svo sanngjarlega fjárveitingu, enda er hún sniðin við þröngan hag ríkissjóðs.

Þá vil jeg minnast örfáum orðum á till. á þskj. 261. Fyrst er till. hv. fjvn. nr. XXIII, um að styrkurinn til Þórbergs Þórðarsonar sje lækkaður allmjög. Hv. fjvn. flutti till. við 2. umr. um að styrkur þessi skyldi falla niður, en hún var feld. Vona jeg að hv. þingmenn sjeu sama sinnis og áður og telji störf þessa manns mikilsverð og nauðsynlegt, að hann geti haldið þeim áfram, og fallist ekki á till. fjvn., því að lækka styrkinn er sama sem að gera starfið að engu.

Þá kem jeg að till. hæstv. fjrh., sem hjer liggja einnig fyrir. Eins og kunnugt er, hefir flokkur hæstv. ráðherra borið fram í Ed. frv. um að fella niður prentun á umræðuparti Alþt. Þetta frv. var sent frá hv. Ed. og var hjer til umr. sama dag og hæstv. stjórn tók við völdum, og kom til atkvæða meðan hæstv. ráðherrar voru inni í hliðarherbergi að semja stefnuskrá sína. Gerðu þá þingdeildarmenn sjer lítið fyrir í því stjórnleysi, sem þá var, og drápu frv. stjórnarflokksins. Nú hefir hæstv. fjrh. tekið málið upp, og ekki síst af því, að ýmsir litu svo á, að með því að fella frv. hafi verið tekið á móti hinni nýju stjórn með vantrausti, þá er þetta nú sennilega tekið upp til þess að gera lítið úr hv. Nd. og láta hana bæta fyrir brot sitt. Er líklegt, að till. eigi að koma undir atkv. hv. deildar, en fleiri búast nú við hinu, að hæstv. forseti (BSv) sjái svo fyrir henni, að þm. þurfi ekki að hafa fyrir því að skera hana niður. En meðferð tillögunnar hjer í deildinni má skoða sem traust eða vantraust á hæstv. stjórn. Verður það að segjast, að harla er óviðkunnanlegt, að ráðherra flytji tillögur, sem ganga í berhögg við þingsköpin. Það er heldur ekki ein báran stök fyrir hæstv. fjrh. Hann flytur till. á sama þskj., nr. V, sem hefir það sameiginlegt við hina fyrri, að hún brýtur í bág við gildandi lög og verður einnig að sjálfsögðu vísað frá. Hún fer fram á heimild til að taka 50 þús. kr. úr landhelgissjóði til strandvarna. Lög um landhelgissjóð munu vera frá 1913, og getur ef til vill verið álitamál, hvort tillagan mætti ekki komast að vegna þeirra. En breytingin á lögum um landhelgissjóð frá 1915 gerir það alveg ómögulegt, að slík tillaga sem þessi geti komist að í fjárlögum.

Í 5. gr. þeirra laga er skýrt ákveðið, að til þess tíma, sem sjóðurinn tekur til starfa, má ekki skerða hann. Jeg skil ekki, hvernig í dauðanum hæstv. fjrh. ætlar að komast að þessum sjóði lagaleiðina einungis með ákvæði í fjárlögum. Jeg mótmæli því, að þessi leið verði farin, jafnvel þó hægt yrði að gera hana löglega. Það er þvert á móti tilgangi sjóðsins.

Í fyrra varð ekki svo lítill hvellur gerður út af því, að hæstv. þáverandi fjármálaráðherra hafði tekið fje sjóðsins að láni handa ríkissjóði, en greiddi þó af honum fulla vexti, þannig að sjóðurinn tapaði engu. (HK: Hvar stóð það, að hann hefði fengið hann að láni?). Jeg veit ekki, hvort jeg á að skilja þetta svo, að hæstv. stjórn hafi hnuplað sjóðnum. Ef svo er, fer málið að verða heldur alvarlegt. (KlJ: Það er til lánsbrjef fyrir því). Jeg vil miklu heldur trúa því, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) segir um þetta mál. Væri miklu meiri ástæða til að gera hvell, verði farið að skerða landhelgissjóð á þennan hátt. Mjer virðist því, að báðar till. hæstv. fjrh. sjeu fyrirfram dauðadæmdar, þannig, að þeim hljóti að verða vísað frá sem ólöglegum.

Það kom fyrir dálítið atvik hjer í kvöld, sem bendir til, að eitthvað varhugavert sje við þessa till. Einn þm. ætlaði að útvega sjer Stjórnartíðindin frá 1915, þar sem lögin um landhelgissjóðinn voru. En þá vill svo kynlega til, að ekkert eintak finst af þessu ári, hvorki í skrifstofunni nje á borðunum, fyr en loks að eitt eintak var grafið upp úr skjalabunka hjá einum þm. Það er alveg eins og einhver hafi skotið þessum lögum undan, svo ekki væri hægt að sjá hið ólöglega í tillögu fjármálaráðherra.

Viðvíkjandi orðum hv. þm. Ak. (BL) um skáldastyrkinn til Þorsteins Gíslasonar, get jeg fallist á, að hann sje fullkomlega maklegur þess að fá skáldastyrk. Og jeg ætla alls ekki að mótmæla þeim orðum hv. þm. (BL), þegar hann sagði, að Þorsteinn Gíslason væri heiðarlegasti blaðamaðurinn á Íslandi. En jeg vil aðeins spyrja: Hvers vegna losaði Íhaldsflokkurinn sig við heiðarlegasta blaðamanninn á Íslandi? Og það meira að segja löngu áður en ráðningarsamningur hans var útrunninn. Á það að skiljast svo, sem minna verði um þessa kosti hjá Íhaldsflokknum og blöðum hans hjer eftir!