18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (3461)

59. mál, friðun rjúpna

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil leyfa mjer að gera stutta aths. um rjúpnaátið í oftnefndri veislu, því að jeg hygg, að jeg viti, hvaða veislu menn eiga þar við. Jeg var í þeirri veislu, og bárust mjer sögur um það á eftir, að rjúpurnar hefðu verið íslenskar, sem á borðum voru. Kallaði jeg þá forstöðumann veislunnar á minn fund og spurði hann um þetta, en hann þverneitaði, að nokkur hæfa væri í þessu, og varð ekki annað sjeð en að hann færi með rjett mál. Hefði honum þó verið óhætt að gangast við því, ef rjúpurnar hefðu verið íslenskar, því að ekki hefði verið unt að sekta hann, heldur aðeins þann, er seldi. Hann hefði ekki framið neitt lagabrot eftir gildandi lögum. Jeg skal og geta þess, að mjer fanst þessar rjúpur öðruvísi en íslenskar rjúpur, og kom mjer ekki annað til hugar en að rjett væri sagt til um þær. — Það er rjett hjá hv. 1. þm. Reykv. (JÞ), að um þennan bæ eru búnar til ýmsar sögur, sem aukast og stækka, eftir því sem þær komast lengra, og ættu háttv. þm. að varast að leggja trúnað á þessháttar Gróusögur.