19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (3468)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jón Auðunn Jónsson:

Út af fyrirspurn hv. þm. Str. (TrÞ) skal jeg taka það fram, sem öllum hv. þm. er kunnugt, að aðalástæðan gegn því að veita undanþágu frá fiskiveiðalögunum var sú, að við gætum ekki ráðið við það, hve víðtækar undanþágur kæmu í kjölfar þessarar. En afleiðing þeirrar undanþágubrautar, sem ráðgert var að fara inn á, yrði sú, að fiskveiðar okkar og salan á fiski til útlanda væri þá í hættu stödd. Við umr. um það mál drap jeg á það dæmi, að ef hingað kæmu í ár 8–10 erlendir togarar, þá mundi framleiðslan aukast til stór skaða fyrir markað okkar á Spáni og Ítalíu. Hinsvegar mundi eðlilegur vöxtur framleiðslunnar ekki saka neitt, t. d. 5–10 þús. skpd. á ári. Jeg get ekkert sjeð því til fyrirstöðu, að Hafnarfjörður fái tvo til þrjá togara. Það gengur nú svo, að sje skipastóllinn ekki aukinn með aðkeyptum skipum, þá gengur hann saman. Einkum færist mótorbátaflotinn saman, ef ekkert er aðkeypt. Nýbyggingar hjer svara ekki til þess, sem skipastóllinn gengur úr sjer árlega. Jeg get því ekki sjeð neina hættu, frá sjónarmiði þorskveiðaútgerðarinnar og hinna erlendu saltfiskmarkaða, við það að veita Hafnarfirði ábyrgð til þess að kaupa ný skip. En mjer er það nauðugt að ganga inn á þessa braut, vegna ríkissjóðsins. Jeg hefi verið því mótfallinn að undanförnu, að þingið veitti ábyrgð ríkisins einstökum mönnum. En hjer er kanske svo vel um hnútana búið, að hættulaust sje fyrir ríkissjóð. En ef ábyrgðin er veitt, verður að treysta því, að stjórnin hrapi ekki að því, án þess að vel sje sjeð fyrir tryggingum. Jeg hefi átt tal um þetta við menn, sem standa nærri þessum fjelögum í Hafnarfirði, og eftir því, sem jeg hefi komist næst, þá hygg jeg, að engin hætta sje að veita ábyrgðina, a. m. k. í öðru tilfellinu. En annars geta þdm. ekki myndað sjer ábyggilega skoðun á því, og verði frv. samþ., þá verður að fela stjórninni að athuga þetta. Stjórnin hefir hingað til gætt fullrar varúðar í slíkum tilfellum.

Áður en jeg get greitt þessu frv. atkv. til nefndar, vil jeg gera fyrirspurn til hæstv. atvrh. (KlJ): með hvaða leyfi og skilyrðum þeir bresku togarar, sem eru komnir til Hafnarfjarðar, stunda veiðar þaðan? Og eins, hve mörgum togurum hefir verið leyft að stunda þaðan fiskveiðar? Því ef ríkisstjórnin hefir veitt 3–4 enskum togurum undanþágu til að stunda hjer veiðar, þá sje jeg enga ástæðu til þess að samþ. þetta frv.