19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (3471)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Þorleifur Jónsson:

Mjer þykir það að vísu afarleiðinlegt að standa upp til þess að mæla á móti bjargráðatillögum við Hafnfirðinga, þegar ástandið er eins bágborið þar, eins og lýst hefir verið hjer í hv. deild. En það er á hitt að líta, að þó að þetta kunni að vera bjargráð við Hafnfirðinga, sem þó hv. 1. þm. G. K. jafnvel efast um að sje, þá er þegar búið að binda ríkissjóðinum eigi alllítinn bagga með ábyrgðum. Á þingunum 1921–1923 var veitt heimild til þess að ganga í ábyrgðir fyrir 1½ milj. kr. lánum, og finst mjer þá vera komið út á allvarhugaverða braut, ef það á að fara að verða venja á hverju þingi að bæta við ábyrgð á ábyrgð ofan. Það gæti svo auðveldlega orðið til þess að draga úr lánstrausti ríkissjóðs, auk þess, sem rekið getur að því, að eitthvað geti lent á ríkissjóði af slíkum skuldum. Þá hefir auk þessa verið veitt ábyrgð fyrir togaralánum í Englandi, sem jeg veit ekki hve stór eru, en jeg geri þó ráð fyrir, að ábyrgðir ríkisins sjeu þegar orðnar mikið yfir 2 milj. kr., og sýnist mjer þá lítt gerlegt að bæta við bráðabirgðaheimild fyrir 500 þús. kr. nú. Mjer sýnist þessa og minni þörf, er það hefir verið upplýst, að 4 togarar eru nú gerðir út frá Hafnarfirði, og bæta því úr atvinnuskorti í bráð, enda þótt þeir eigi þar ekki heima nema að nafninu til. Þessvegna sje jeg mjer ekki fært að greiða, þessu frv. atkvæði mitt.