19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (3476)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Pjetur Ottesen:

Háttv. 1. þm. Reykv. (JÞ), hefir þegar tekið af mjer að mestu ómakið, en jeg vil aðeins bæta því við, að mjer finst full ástæða til þess, að leitað sje dómsúrskurðar um það, hvort heimilt sje að lögum að taka erlend fiskiskip á leigu, eins og Hafnfirðingar hafa nú gert, og mjer finst, að málið sje svo mikils vert og að það standi stjórninni einna næst að sjá um, að rjettur skilningur á lögunum fáist á þenna hátt. En úr því að menn eru nú á annað borð farnir að spyrja stjórnina, ætla jeg líka að leggja eina spurningu fyrir hæstv. atvrh. (KlJ). Mjer hefir borist það til eyrna, að norskur útgerðarmaður, sem áður hefir rekið síldveiðar hjer við land, í nokkur undanfarin ár, sje nú að undirbúa byggingu síldarbræðsluverksmiðju á Hesteyri. Jeg vil nú spyrja, hvort þetta sje gert með vitund eða að vilja og samþykki hæstv. stjórnar.

Hvað þetta frv. snertir, sem hjer liggur fyrir, þá hefi jeg verið í hálfgerðum vanda staddur um það, hvort jeg ætti að fylgja því eða ekki, vegna þess, að jeg er alveg á sama máli og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) í því, að ríkissjóður hafi þegar bundið sjer fullþunga bagga með ábyrgðum, þó að þetta kæmi eigi til. En nú hefir hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), flm. þessa frv., með því að lýsa því yfir, að þetta muni koma Hafnfirðingum að litlu eða engu gagni, leyst mig úr þessum vanda, því jeg sje síður en svo ástæðu vera til þess að gera leik að því, úr því þetta er svona, að bæta ábyrgðum á ríkissjóð, með því að samþ. þetta frv.