19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (3480)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jón Þorláksson:

Jeg vildi aðeins segja hæstv. atvrh. (KlJ) það, að hvorki hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) nje nokkur annar þm. hefir nú með einu orði vikið að því, að einhver hluti landsmanna ætti að hafa forgöngurjett til fiskiveiða. Ræða hv. þm. N.-Ísf. gaf yfirleitt ekkert tilefni til orða hæstv. atvrh. Hitt er öðru máli að gegna, að það hafa áður komið fram raddir um að takmarka tölu síldveiðaskipanna. En þær raddir komu ekki fram hjer í þessum sal, heldur í blöðunum hjer, og það fyrir mörgum árum. Hefir oft síðan verið um þetta skrifað. En það stendur ekki í neinu sambandi við það, sem hæstv. atvrh. talaði um. Því sú till. var ekki borin fram af umhyggju fyrir sjerstökum mönnum, heldur af ótta við það, að verð síldarinnar fjelli, ef of mikið væri veitt. — Jeg ætla mjer annars ekki að halda uppi umr. um það efni nú, en vil aðeins endurtaka það, að hæstv. atvrh. hafði enga ástæðu til að fara út í þá sálma í þessu sambandi.

Jeg vil annars mæla með því, að þetta frv. sje látið ganga til nefndar. Verð jeg að taka í sama strenginn og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) með það, að það sje næsta óaðgengilegt eins og það er nú útbúið, og væri full þörf á að dytta að því eitthvað betur.

Jeg vil ekki leggja út í umr. við hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um hans mikla áhugamál; jeg er ekki vanur að leggja mig í slíkt. En jeg býst þó við, að einhverjir muni ef til vill vilja muna þessi umyrði hv. þm., að atvinnuvegirnir hjer á landi sjeu aðeins í höndum fámennrar klíku. Jeg býst við, að margur til sveita muni brosa við, er hann frjettir þessi ummæli hv. þm. Því sjerhver maður, sem nokkuð þekkir til íslensks atvinnurekstrar, hvort heldur er til lands eða sjávar, veit, að þeim er einmitt þveröfugt varið. Hvað það snertir, að atvinnurekendur við sjávarsíðuna stöðvi þegar reksturinn, er þeir hætta að græða á honum, þá er það bæði flónslega og þó mannvonskulega mælt. Því það er alt of vel kunnugt, að þessir menn hafa með furðanlegri þrautseigju rekið þessa atvinnu um 3–4 ár með tapi yfirleitt, og er hún þó enn rekin af fullum krafti. Þeir eiga því sannarlega betri viðurkenningu skilið fyrir þrautseigju sína en hv. 2. þm. Reykv. hefir nú látið í tje.