19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (3483)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Ásgeir Ásgeirsson:

Það, að jeg er einn af flm. að þessu frv., er ekki vegna neinna einstaklinga, heldur vegna Hafnarfjarðarkaupstaðar, ef hægt væri að hjálpa honum eitthvað með þessu. Það lítur svo út, eftir því sem mjer hefir verið skýrt frá, að þörfin sje mjög brýn. Nú hefir því verið fleygt, að það sjeu að bætast við togarar í Hafnarfirði. Sje það satt, þá mun stjórnin taka það til athugunar, eins og annað, sem að þessu lýtur, og komist hún að þeirri niðurstöðu, að þörfin sje ekki mjög brýn, eða að úr henni megi ráða á annan hátt, þá notar hún auðvitað ekki heimildina.

Jeg tel það engan galla á frv., að ekki er neitt nánar tekið fram í því um það, hvernig búið skuli um tryggingarnar. Það er verk landsstjórnarinnar að sjá um, að ríkið verði altaf skaðlaust, og verður ekki komist hjá því að treysta henni til slíkra framkvæmda, jafnt fyrir þá, sem eru í andstöðu við hana, sem hina.

Það eru annars harla merkileg atriði, sem hafa slæðst inn í þessar umr. — Eftirtektarverðast er þó það ósamræmi í skoðunum ýmsra hv. þm., sem hæstv. atvrh. (KlJ) benti rjettilega á áðan. Þegar ýmsir hv. þm. eru að ræða um það, hvernig verslun landsins verði best fyrir komið, þá virðist svo sem þeim finnist endi bundinn á allan vanda, ef aðeins frelsið sje varðveitt. En það kveður við nokkuð annan tón, þegar farið er að tala um atvinnumálin. Þá finst sömu hv. þm. sem ekki muni annað tjóa en að einokun sje beitt, til að verjast samkepni annara þjóða. Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) kveður þetta nauðsynlegt, til þess að verða ekki ofurliði bornir af útlendingum. Jeg skal ekki bera brigður á það. En í hvaða tilgangi var salan á steinolíu einokuð hjer, öðrum en þeim að verjast því, að Íslendingar yrðu þar ofurliði bornir af erlendum olíukóngum? Og þó lýsir hv. þm. N.-Ísf. sig fjandsamlegan þeirri ráðstöfun. — Nei, það er nokkuð undarlegt, hve mismunandi trú þessir menn virðast hafa á frelsinu. Á einu sviði viðskiftanna segja þeir, að það leiði til hreinnar glötunar, og á öðru telja þeir það þann eina óbrigðula lífsins-elixír. Sá eini meðal hv. þm., sem í þessum efnum er í fullu samræmi við sjálfan sig, er hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), því hann hefir lýst yfir því, að hann vilji fullkomið frelsi og engin bönd, bæði í verslunar- og atvinnumálum þjóðarinnar. Það er ósamræmi að takmarka trú sína á frelsið við einstök mál. Ef menn trúa á frelsið, þá verða menn að vera jafnreiðubúnir til þess að taka á móti ókostunum, sem fylgja því, eins og kostunum. „Frelsinu“ fylgja ekki einasta rjettindi, heldur og skyldur, og skyldurnar verða þeir, sem ótakmarkaða trú hafa á þessari tegund af frelsi, að rækja, ekki síður en að njóta rjettindanna.

Jeg hefi ekki sagt þetta af því, að jeg líti svo á, að menn fari hjer villir vegar í fiskiveiðalöggjöfinni. Jeg held einmitt, að við sjeum þar á rjettri braut, er við reynum að vernda þær handa búsettum mönnum. En við megum ekki ganga lengra á þeirri braut en svo, að við sjeum þó altaf færir um að sjá fólkinu fyrir einhverri atvinnu.

Jeg hefi aðeins viljað benda á þetta ósamræmi, til þess, að hv. þm. kynnu fremur að veita því eftirtekt hjer eftir. Innan skamms verður rætt hjer um einkasölu á tóbaki, og verður gaman að heyra, hvernig frelsishugsjónin verður þá notuð.

Það ósamræmi, sem hefir komið hjer fram í tali ýmsra hv. þm., verður annars til þess að minna á heiti flokksins, sem þeir heyra til. „Frjálslyndur Íhaldsflokkur“ er einmitt álíka sundurleitt heiti og þær skoðanir, sem flokksmennirnir hafa í verslunar- og atvinnumálum.