19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (3484)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki hætta mjer út á þá breiðu braut, sem þetta mál er nú komið á, en aðeins halda mjer við það, eins og það liggur fyrir.

Það er satt, sem hv. frsm. (ÁF) hjelt fram, að ríkisstjórnin ætti sjálf að annast það, að tryggingarnar væru í lagi. En það er ekki þetta, sem jeg tel varhugaverðast. Auðvitað liggur það í hlutarins eðli, að stjórnin gæti hjer sem annarsstaðar hagsmuna ríkissjóðsins. Og það er ekki það, sem jeg óttast, að henni sje ekki treystandi til þess. Það, sem jeg óttast, er það óorð og lánstraustsspillir, sem við hlytum, ef ógætilega væri með heimildina farið. Hv. frsm. (ÁF) vitnaði í greinargerð frv. og kvað 2 fjelög í Hafnarfirði þegar hafa hafið undirbúning og safnað fje. En sá undirbúningur er skamt kominn áleiðis, þar sem þau hafa enn ekki fengið neitt loforð um lán. Hv. þm. (ÁF) bætti því svo við, að stjórnin myndi ekki veita þessa ábyrgð fyr en eygður væri möguleikinn fyrir láni. — Nei, jeg bjóst auðvitað ekki við því, að hún myndi gefa Pjetri eða Páli ábyrgð upp á vasann, svona að gamni sínu, til þess að flagga með í útlöndum; jeg vil ekki vantreysta ríkisstjórninni svo. En hvað yrði gengið á undan, áður en þessi fjelög gætu farið á fund stjórnarinnar eftir ábyrgðinni? Þeir menn, sem lánin útveguðu, væru þá búnir að ferðast út um lönd með ekki verra plagg upp á vasann en þessi lög væru og búnir að láta allskonar lánsstofnanir erlendis meta það og velta fyrir sjer, hve mikils virði ríkissjóður Íslendinga væri. Í þessu liggur aðalhættan.

Jeg veit ekki, hvort bankarnir hjer eru svo staddir, að þeir geti ekki veitt lánið, en sje svo, að þeir sjeu aðeins tregir til þess, þá sje jeg ekkert á móti því, að hæstv. stjórn reyndi að liðka þá eða gengi jafnvel í ábyrgð fyrir fjelögin gagnvart þeim.

Jeg kvaðst ekki ætla mjer að fara út fyrir málið, en viðvíkjandi því, sem hv. samþm. minn (JBald) sagði, að það væru aðeins örfáir menn, sem rækju fiskiveiðar hjer við land, þá má vel vera, að það fari vel á því að segja svo í vissum hóp manna. En þó komið geti fyrir, að atvinurekendur og sjómenn sjeu ósáttir um einstök atriði, t. d. kaupgjald, þá hygg jeg farsælla fyrir atvinnuveginn, að mest áhersla sje lögð á sameiginlegu hagsmunina. Og það er báðum til hags, að fyrirtækin gangi sem best, og því þarfara að reyna að stuðla að því, að svo megi verða, en tala mikið um, hversu mjög annar aðilinn rýji hinn, enda sennilegast, að það sje upp og ofan, hve gróði útgerðarmanna sje mikill.