19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (3488)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jakob Möller:

Þegar hv. frsm. (ÁF) var að tala um heimild, sem áður hefði verið gefin án nokkurrar greinargerðar, þá geri jeg ráð fyrir, að hann hafi átt við heimild þá, sem stjórninni var veitt í fjárlögum 1922, um að takast á hendur ábyrgð fyrir togaraeigendur hjer, aðallega gagnvart einum erlendum banka. En þetta er tæplega sambærilegt, því sú heimild var gefin eftir kröfum þessara lánardrotna og til þess að hjálpa ákveðnum mönnum til að gera samning um greiðslur á skuldum, sem þegar voru stofnaðar. Var því ekki hægt að flagga með þeirri ábyrgð. Hinsvegar var sú heimild misbrúkuð, enda er ómögulegt fyrir þingið að koma í veg fyrir, að Pjetur og Páll fari út í lönd og segi við erlendar peningastofnanir: Viltu lána mjer fje, ef íslenska ríkið ábyrgist? — Það er ekki hægt að taka fyrir slíkt með allsherjarbanni, hvað þá öðru. En heimildin sjálf gaf ekkert tilefni til þess, að út fyrir hana væri farið, að teknar væru í ábyrgð skuldir, sem ekki var búið að stofna til, eða skip keypt.

En í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, þá er jeg gróflega hræddur um, að erfitt væri að búa svo um þessa heimild, jafnvel þó að hún væri bundin við íslensku bankana, að einhverjir kynnu ekki að flagga með henni erlendis. Enda kemur það ekki til, að ábyrgðin sje einskorðuð við íslensku bankana; þá væri eins hægt að fella málið strax, því að bankarnir hjer treysta sjer ekki til að veita þetta fje, þó að ríkissjóður ábyrgist lántökuna. Bankarnir hafa nefnilega ekki nægilegt útlent fje til þess, þó þeir kynnu að hafa nóga innlenda peninga.

Annars mun jeg greiða málinu atkv. mitt til 2. umr. og fjhn.