19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (3489)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer finst skylt að þakka hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) svör þeirra við fyrirspurnum mínum, þó jeg verði að játa, að jeg sje litlu nær, þar eð báðir hv. þm. töluðu hvor gagnstætt öðrum.

Annað atriði er það, sem mikið hefir verið rætt um, hversu hættulegt og slæmt það sje, að mönnum gefist tækifæri til að flagga með ábyrgð ríkissjóðs erlendis. Ekki dreg jeg úr því, en benda vil jeg á, að farið er á stað með þetta frv. til þess að styðja heilbrigðan atvinnuveg, en með leyfi Alþingis í fyrra hafa ferðast menn um nágrannalöndin, með heimild til að stofna hjer banka fyrir erlent fje, sem njóta skal mikilla fríðinda, svo sem skattfrelsis um mörg ár.

Jeg vil nú spyrja: Er hægt að gefa út stærri auglýsing um það, hve Ísland sje illa statt en þetta, að hver, sem fje hefir, má stofna hjer banka með þessum fríðindum? Og jeg vil beina því til þeirra, sem fastast standa gegn þessu máli, hvort þeir muni þá ekki vilja líka taka fyrir þann leka, að flaggað sje erlendis með bankaheimildinni.