19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (3490)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jakob Möller:

Hv. þm. Str. (TrÞ) meinti það víst ekki til mín, að jeg væri hræddur við að veita ábyrgðina af því, að flaggað yrði með henni, — jeg sagði ekkert um það. En hitt verð jeg að taka til mín, að mínum hluta, að leyft var að stofna þennan banka. En skáldskapur mun það vera hjá hv. þm., að veifað sje þeirri heimild erlendis; jeg veit ekki til, að þeir, sem stóðu aðallega fyrir því máli í fyrra, hafi farið utan síðan. Og ólíku er saman að jafna, hvort veitt er heimild til að stofna banka, eða flaggað er með ábyrgð, sem veitt er einstökum mönnum.

Það er vitanlegt, að hjer er hægt að stofna banka án nokkurrar lagaheimildar, og þau hlunnindi, sem ráðgert er að veita hinum fyrirhugaða banka, eru ekki vitund meiri en þau fríðindi, sem veitt hafa verið öðrum banka, sem rekinn er hjer af einstökum mönnum, og er það ekki á nokkurn hátt landinu til vansa. En það, sem aðallega ræður afstöðu hv. þm. Str. til þessa bankamáls — og þeirra, sem honum fylgja að málum — er ekkert annað en hinn gamli einokunarandi og helber misskilningur á málinu. Kom þó misskilningurinn ekki eins greinilega í ljós nú og í fyrra hjá hv. samþm. mínum (JBald), sem sagði, að menn mundu fara út í lönd og pranga með þessi hlunnindi. Það er aðeins helber vitleysa.