27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (3492)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hafði tekið að mjer framsögu þessa máls, f. h. fjárhagsnefndar, er hafði það til meðferðar, og hefi sama sem engu við að bæta umfram það, sem stendur á þskj. 192. Meirihl. nefndarinnar vonast eftir, að með þeim breytingum, sem hún ber fram, um að heimildin taki aðeins til lána, sem tekin yrðu í hjerlendum bönkum, þá sje nú sneitt hjá þeim annmörkum, sem helst þóttu á frv. vera við 1. umr. Að öðru leyti vil jeg benda á það, að sjálfsagt er að fara varlega í að veita slíkar ábyrgðir, og verður að gæta þess vel, að hagsmunir ríkissjóðs sjeu ekki fyrir borð bornir, en þessar ráðstafanir, sem hjer er farið fram á, eru hliðstæðar ýmsu því, sem oft hefir áður verið gert af ríkisins hálfu til þess að hrinda í framkvæmd þarflegum fyrirtækjum og til þess að efla atvinnu í landinu.

Brtt. á þskj. 194 hefir ekki komið til umræðu í nefndinni sjerstaklega, enda þótt þar hafi að vísu verið á hana minst. Meirihl. nefndarinnar gat ekki aðhylst efni þessarar brtt., sem miðar í þá átt að einskorða það við bæjarfjelag Hafnarfjarðar, að það verði eigandi þessara skipa; enda þótt orðalag þessarar brtt. sje eigi sem skýrast, mun þó þetta vera tilgangurinn, og gat nefndin eigi aðhylst hann.