27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (3493)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jón Baldvinsson:

Það er ekki nema fátt eitt, sem jeg nú hefi við það að bæta, sem jeg sagði um þetta mál við 1. umr. Jeg get ekki aðhylst þá leið, sem sjútvn. hefir valið í þessu máli. Jeg hefi ávalt talið eðlilegra, að bæjarsjóður Hafnarfjarðar keypti þessi skip og hjeldi þeim út, því þá væri meiri trygging fyrir því fengin, að skipin hjeldist þar kyr og atvinna yrði varanlegri fyrir íbúa Hafnarfjarðar. Þó að þessi ábyrgð verði veitt einstökum mönnum þar, er ómögulegt að hafa áhrif á það á eftir, hvernig þeir ráðstafa þessum skipum sínum. Jeg sje ekki, að hægt sje að meina þeim að flytja þaðan með þau, annaðhvort til Reykjavíkur eða eitthvað annað, sem þeim þætti ef til vill betur henta en að vera kyrrir í Hafnarfirði. En á hinn bóginn, ef bæjarsjóður Hafnarfjarðar ætti þessi skip, er engin hætta á, að þau yrðu flutt þaðan. Jeg styðst og í þessu efni við samþykt frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sem óskar þess, að ábyrgðin verði veitt bæjarsjóði þar, en ekki einstökum mönnum. Jeg get ekki fallist á þá skoðun hæstv. fjrh. (JÞ), að orðalag brtt. 194 sje svo óljóst, að ekki sjáist af því, að ábyrgðin eigi aðeins að veitast Hafnarfjarðarbæ. Enda heyrðist mjer hæstv. fjrh. draga það lítið í efa. Jeg ætla svo að láta skeika að sköpuðu með þessa brtt., en læt aðeins getið, að jeg tel þetta fyrirkomulag miklu tryggara.