27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (3494)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. á þskj. 192 með fyrirvara, enda er og tekið fram í því, að jeg sje þessu frv. mótfallinn, og skal jeg nú gera nokkra grein fyrir því, hversvegna það er.

Það hefir verið fært fram sem ástæða fyrir þessu frv., að atvinnuleysi væri svo mikið í Hafnarfirði, að óhjákvæmilegt væri að koma þar upp einhverjum meiriháttar atvinnufyrirtækjum, til bjargar fólkinu.

Því er nú svo varið með mig, að jeg á erfitt með að skilja þetta skraf um atvinnuleysi, hvort heldur er á þessum stað eða öðrum hjer á landi. Jeg á erfitt með að skilja, að atvinnuleysi þurfi að eiga sjer stað nokkursstaðar hjá oss. Jeg veit vel, að um þetta er kvartað hjer og þar í bæjum og kauptúnum og að þar getur verið lítið um vinnu á vissum tímum, en það sýnir aðeins, að fólkið hefir þyrpst saman þar, sem lítið er að gera, og sótt eftir hóglífi bæjanna. Það eru óteljandi viðfangsefni til handa þessum mönnum, og ættu þeir því allir að geta komist af þessvegna. Það liggur svo mikið af óræktuðu landi víðsvegar um sveitir landsins, reiðubúið að gefa góðan arð, ef vinnugjarnar hendur vildu að því starfa, að engan vinnufæran mann þarf að skorta atvinnu. Sama má segja um strandlengjuna og staði til útróðra; þeir eru ótölulegir, hvervetna á landsins löngu ströndum. Þess vegna álít jeg í raun og veru alls ekki neina brýna þörf knýja til þess, að ríkið bindi sjer þunga bagga eða gangi í tvísýnar ábyrgðir, til þess að halda fólkinu á kaupstaðarmölinni á þessum stað eða öðrum, sem það heldur að sjer höndum mikinn hluta ársins, en situr á kaffikrám eða kvikmyndahúsum og öðrum þessháttar skemtistöðum, þegar það þykist vera búið að afla ársforða með sumarvinnu, og leggur hendur í skaut um marga mánuði. Jeg kannast því eigi við nauðsyn á því að styðja að dvöl fólksins á slíkum stöðum, eða að gefa því frekara færi á að safnast þar saman.

En jeg finn ástæðu til þess að benda á, að út frá þessum bæjum, er oftast kvarta undan atvinnuleysi, Hafnarfirði og Reykjavík, hefir streymt og streymir heilt syndaflóð af þurfamönnum út í sveitirnar, og verður þeim til óbærilegs byrðarauka. Venjulega er þetta fjölskyldufólk, sem sest hefir að, meðan einhleypt var, við spilaborgir bæjanna, aukið þar kyn sitt og þjónað um stund þeim stærri atvinnureköndum. En þegar í ári harðnar og ómegðin eykst, þá er lifað á bónbjörgum, og loks hverfa fjölskyldurnar hver af annari heim til sveitanna, þar sem fjölskyldufeðurnir eiga framfærslurjett eða fæðingarhrepp.

Síðustu árin hafa í þessu efni sýnt, hve holt þetta aðstreymi að bæjunum er, og ef nú á af ríkisins hálfu að fara að örva þetta aðstreymi að bæjunum, þá býst jeg við, að næsta syndaflóðið til sveitanna verði sýnu verra.

Togaraútvegurinn kann að virðast álitlegur atvinnuvegur sem stendur, þótt jafnan hafi orkað tvímælis um arðsemi hans í seinni tíð, en þegar út af ber með hann, þá blasir við örbirgðin, grátur og gnístran tanna, en fólkið, sem fyrir hóglífis sakir og glysgirni hefir dregist að honum, er rekið úr bæjunum, eða alið þar að meira eða minna leyti af sveitum þeim, sem hafa framfærsluskylduna og síst mega við þyngslunum af því.

Jeg tel það í alla staði óviðeigandi, að ríkið ýti undir fólkið að flytja frá æskustöðvum þess í sveitunum og þrengjast saman í bæjaholum, þar sem það glatar mörgu því besta, sem í fari þess er, en úrkynjast og siðspjallast eða verður að dugminni og lakari borgurum, eins og alkunnugt er af reynslunni hjer og annarsstaðar.

Við þetta munu að vísu margir eigi vilja kannast hjer, en fáir munu þó vilja halda því fram, að kynstofn sveitanna, sem hefir yfirgefið þær, hafi tekið líkamlegum eða andlegum framförum við áhrif bæjalífsins.

Svo er eitt atriði, sem jeg verð að minnast á. Í gær var feld hjer í deildinni till. um svipaða ábyrgð frá ríkinu, en miklu lægri og minni háttar að öllu leyti. Það var till. mín og hv. 1. þm. N.-M. (HStef), um að ríkið ábyrgðist 200 þús. kr. lán eða 2/5 til stofnunar klæðaverksmiðju á Austurlandi, ef íbúar þessa landshluta legðu fje til fyrirtækisins að öðru leyti, kæmu því á fót og rækju það. Slík ábyrgð er að öllu áhættulaus, enda að minnihluta stofns um hana beðið, og þó vissulega tímabær og nauðsynleg. Þessháttar fyrirtæki mundu heldur ekki draga að sjer eða skapa öreigalýð. Hjer er aftur beðið um ½ miljón króna, en þeir, sem lánsins eiga að njóta, virðast eiga að sleppa með að leggja fram 2–300 þús. kr. tillag. Hlutfallið er hjer því alveg öfugt við það, sem jeg nefndi áður, og áhætta ríkissjóðs miklu meiri. Eftir þær undirtektir, sem ábyrgðarbeiðni mín fekk hjer í gær, mundi jeg því telja samþykt þessarar ábyrgðar mestu ósamkvæmni, enda hefi jeg frá upphafi verið mótfallinn þessari ábyrgð, eins og rjettilega er fram tekið í nál.

Jeg tel það vera óheillaráð, sem ríkið ætti síst af öllu að eiga þátt i, að teygja fólkið á brottu úr sveitunum til kaupstaðanna og gera gyllingar til þess, að það hverfi frá atvinnuháttum, sem eru miklu lífvænlegri en eyrarvinnan í kaupstöðunum, og auk þess miklu hollari, frá hvaða hlið sem litið er á málið.