27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (3496)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Halldór Stefánsson:

Af því að jeg á nokkurn þátt í að flytja þetta frv., þá vildi jeg segja nokkur orð um það.

Frv. fer fram á það, að ríkissjóður ábyrgist lán til togaraútgerðar í Hafnarfirði. Það er fram komið til þess að bæta úr atvinnuskorti, sem þarna er. Þegar nefndin flutti þetta frv., þá var það áskilið, að þeir erlendu togarar, sem nú eru gerðir út frá Hafnarfirði, í hálfgerðu eða algerðu lagaleysi, hyrfu burt þaðan, jafnskjótt og þessi fyrirtæki byrjuðu framkvæmdir sínar. Mjer er ætlað að efla innlendan atvinnuveg og bæta úr atvinnuleysi, sem kom á, er útlendingar þeir, er þarna ráku fiskiveiðar, hættu.

Af því að þetta frv. hefir nú verið sett í samband við till. um klæðaverksmiðju á Austurlandi, sem var til umræðu hjer í deildinni í gærdag, þá ætla jeg að fara um það nokkrum orðum einnig í því sambandi.

Jeg er samdóma þeim háttv. þm. (JörB), sem síðast talaði um það, að þessi tvö mál sjeu sambærileg. Bæði miða að því að styðja atvinnuvegi og að efla framleiðsluna í landinu. En á því furðar mig, að ýmsir hv. þm., sem styðja þetta frv., greiddu atkv. gegn tillögunni. Í þessu finst mjer talsvert ósamræmi. Jeg ætla nú samt að verða samræmari en þeir hv. þm., sem þetta gerðu, og greiða atkv. með frv. Býst jeg við, að ýmsir fleiri hv. þm. vilji gjarnan vera það líka, og munu þeir fá tækifæri til að sýna það síðar. Væntanlega kemur bráðum til atkvæða till. um ábyrgð fyrir klæðaverksmiðju á Austurlandi, og vænti jeg þá, að þeir háttv. þm., sem styðja þetta mál, greiði einnig götu hennar.

Jeg vildi aðeins með þessum orðum gera grein fyrir atkv. mínu.