27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (3500)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Ágúst Flygenring:

Jeg hefi ekki annað að gera, en að þakka þeim hv. þm„ sem talað hafa með þessu máli. Einkum er jeg hv. 2. þm. Árn. (JörB) þakklátur fyrir hans ágætu ræðu, sem sýndi mjög næman skilning hans á málinu. Sömuleiðis þakka jeg hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir, að hann mælti með frv. Yfirleitt hafa engin mótmæli komið gegn þessu frv., nema frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hann kvað þetta myndu verða til þess að draga menn úr sveitunum til kaupstaðanna. Var helst svo að heyra á hv. þm., að hann vildi helst reka menn úr kaupstöðunum upp í sveit og setja svo útflutningsbann á þá á eftir. En þótt til þessa ráðs yrði nú tekið, þá býst jeg við, að fljótt yrði lítið um atvinnu í sveitinni, því jeg þekki mörg dæmi til þess, að menn úr sveit hafa einmitt komið til Hafnarfjarðar, þegar atvinna gafst þar mikil, fyrir nokkrum árum, til þess að leita sjer atvinnu þar, af því að þeir höfðu enga í sveitinni Er þetta alþekt, að ýmsar sveitir landsins hafa sent verkfæra menn sína til þess að sækja sjó á Suðurlandi um vertíðina. Er það og engin furða, þótt menn reyni að bjarga sjer eins og best gengur. Er jeg öldungis hissa á því, að jafn gamall þm. og hv. 1. þm. S.-M. skuli ekki vita um þetta. Hinu verð jeg líka að halda fram, að það, að vilja þannig hefta frelsi manna í því, hvar þeir búa, kemur heldur illa í bága við skraf undanfarinna ára, um aukin mannrjettindi og dýrmætan kosningarrjett m. m. þykir mjer næsta ótrúlegt, að þeir, sem harðast gengu þá fram, myndu vera mjög áfjáðir í að samþykkja slík bannlög.

Jeg þarf annars fátt að taka fram viðvíkjandi frv. annað en það, að mjer þótti hálfleitt, að þetta skyldi verða bundið við bankana, nfl. eingöngu við innlendu bankana. En það varð ofan á í nefndinni, að verða í þessu efni við tilmælum hæstv. fjrh. (JÞ).

Viðvíkjandi þessum togurum, sem nú eru gerðir út í Hafnarfirði, þá skal jeg taka það fram, að ekki verður með nokkru móti hægt að útrýma þeirri útgerð fyr en þessi verður komin á laggirnar, þ. e. a. s. nægjanleg aukning íslensks útvegs, skipastóls, sem fullnægir atvinnuþörfinni. Auk þess standa þeir útlendingar í skjóli þessarar skýringar á lögunum, sem um hefir verið rætt áður. Að vísu mætti vera, þótt sú skýring hefði aldrei orðið til, að þeir hefðu getað setið þarna á einhvern annan hátt, en miklu munar þó á því að hafa sjálf lögin að bakhjarli.