27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (3503)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg vildi víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), enda þótt hann hafi einna best mælt með ósk Hafnfirðinga og ábyrgð ríkissjóðs. Hann gekk inn á það, að ástæður Hafnfirðinga væru örðugar. En þar sem hann gaf í skyn, að sumt af þeim örðugleikum væri sjálfskaparvíti, er því til að svara, að þótt slíkt kunni að eiga sjer stað, þá eru það þó aðeins undantekningar, svo ósjaldgæfar, að ekki má líta á málið frá því sjónarmiði. Svo er nú komið, að flestir, sem ekki hafa fasta atvinnu þar, geta ekki aflað sjer lífsframfæris þar, og fyrir þeim liggur auðvitað ekki annað en að flytja úr Hafnarfirði. Mjer finst, að þetta sje alvarlegra mál en svo, að ríkið eigi ekki að gera sitt til að kippa þessu í lag, ekki síst þar sem það virðist mögulegt án nokkurra beinna fjárframlaga, með þeim hætti, sem hjer er farið fram á. Hann (SvÓ) talaði um, að hjer væri verið að gera leik til að fjölga fólki í kaupstöðum á kostnað sveitanna, og vildi álíta, að jeg hefði komist að gagnstæðri niðurstöðu við það, sem hefði átt að vera. En jeg er viss um, að mín till. gengur í þessu efni í heppilegri átt en hans. Háttv. þm. mintist á leppmenskuna, sem hann sagði að þessi ábyrgð myndi ekki koma í veg fyrir. Jeg er honum sammála um það, en jeg tók það fram, að íslenskum mönnum ætti ekki að líðast þessi leppmenska og að löggjafarvaldið þyrfti að setja þær skorður við slíkri starfsemi, að innlendum mönnum yrði gert slíkt athæfi ómögulegt, enda er það oftast þeim til lítils gagns, en þjóðinni til stórtjóns. Jeg er viss um, að mín skoðun er hjer rjettari en háttv. 1. þm. S.-M., og get jeg skírskotað til reynslunnar í því efni. Jeg veit, að honum er ekki síður kunnugt en mjer, hver áhrif síldveiðar útlendinga hafa haft á síðari árum. Það voru útlendingar, en ekki innlendir menn, sem gintu fólk frá öðrum atvinnuvegum, ekki í hundraða- heldur þúsundatali, eyðilögðu fjárhaginn, spiltu menningu og hugsunarhætti þjóðarinnar og næstum tæmdu sveitirnar. Sú starfsemi, er innlendir menn ráku á þessu sviði, var í miklu smærri stíl og hvergi nærri eins hættuleg. Mín skoðun er því sú, að nóg sje komið af svo góðu, og mín till. er spor í áttina til að ná þessu marki, en jeg get ekki sjeð, að það, sem hv. 1. þm. S.-M. leggur til þessara mála, bæti að neinu leyti úr. Það kom hvergi fram hjá honum, að hann fyndi svo mjög til þess, að það ástand, er ríkt hefir á þessu sviði, væri svo ýkja slæmt. Hann mintist á Englendinga og talaði um, að þeir myndu ekki láta sjer slíkt lynda, heldur láta koma krók móti bragði. Mjer finst óviðfeldið að vera að gera þeim nokkrar getsakir. Þeir hafa talið sig verndara smáþjóðanna, og að óreyndu á illa við að gera þeim upp orð og athafnir í þessu máli. Við verðum að fara hentugustu leiðina sem völ er á, og svara þeim, þegar að því kemur. Hv sami þm. drap á, að þessi atvinnuvegur hefði reynst stopull á síðustu árum, og vafasamt að treysta honum í framtíðinni. Veit jeg vel, að mörg óhöpp hafa komið fyrir óviðráðanleg, og ef til vill ekki síður viðráðanleg. Ef eitthvað af því hefir verið af mannavöldum, sem jeg býst við, ætti reynslan að geta kent að varast þau viti. En hvað sem því líður, þá er atvinnuvegur þessi orðinn svo stórfenglegur og svo mikið fje komið í hann, að honum verður að halda áfram, ef mögulegt er, og hygg jeg, að við sjeum sammála um það. En jeg get ekki fallist á, að við gerum mikið að því að auka þennan atvinnuveg, heldur er hjer aðeins um atvinnubót fyrir Hafnarfjörð að ræða, ekki svo mjög nú þegar í stað, heldur til að gera Hafnarfjörð sjálfbjarga í framtíðinni. En þar sem þessi atvinnurekstur útlendinga hefir reynst óheilbrigður landi og þjóð þar, vildi jeg stjaka við honum. (SvÓ: Ætlar hv. þm. að stjaka honum burtu?) Já, það ætla jeg að gera með till. minni og atkv., eftir því, sem jeg get. Mjer finst annars einkennilegt, að hv. 1. þm. S.-M. skuli halda þeirri skoðun fram, er hann gerir, svo vel sem hann þekkir til atvinnuvega landsins. Jeg veit, að hann er svo góður reikningsmaður, að hann veit, hvílíkt tjón erlendir atvinnurekendur, og þá ekki síst síldveiðamenn, hafa unnið þessu landi. Hann drap ennfremur á, að jeg hefði nauðugur greitt lánsheimild til tóvinnuvjela atkv. Það er ekki rjett, en hitt viðurkenni jeg, að mjer þótti málið ekki nægilega undirbúið, og hv. þm. gat ekki sýnt fram á, að svo væri. Eins álít jeg, að það sje algerlega óupplýst, hvort heppilegri sjeu tvær stórar verksmiðjur eða fleiri minni, og get jeg ekki sjeð, að gott sje að skera úr því. Þó hygg jeg, að rjett sje að hafa heldur færri en fleiri. Hv. þm drap á reynslu í þessu efni, en hún er ekki næg, að mínu áliti, enda þótt hún hafi kostað ærið fje. Nú mun og vera í ráði að byggja miklu stærri verksmiðju en áður. En alt mun þetta vera lítt undirbúið, hvað snertir stofnkostnað og tilhögun. Hv. þm. talaði um málið, sem hjer liggur fyrir, eins og hjer væri verið að láta ½ miljón úr ríkissjóði. Hjer er aðeins um það að ræða, að landið ábyrgist þetta fje, til að koma þessum umræddu atvinnubótum á. Jeg býst við, að allir sjái, að hjer er um tvent ólíkt að ræða.

Jeg vildi þá að lokum víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Reykv. (JBald).

Hann kvaðst vera andvígur skoðunum mínum á fiskveiðalöggjöfinni. Jeg veit nú ekki betur en að hann greiddi sjálfur atkvæði með þeirri fiskiveiðalöggjöf, er við höfum nú. (JBald: Alveg rétt!) Jeg hjelt, að hann væri því ákveðnari gegn atvinnurekstri útlendinga, er fólki hafa brugðist þær vonir, er það hafði gert sjer um atvinnu hjá þeim, og vegna allra þeirra óþæginda, er það hefir orðið fyrir af þeim sökum. Jeg vil, að atvinnuvegur þessi sje rekinn af innlendum mönnum, en ekki af útlendingum, sem setjast hjer að, eins og kría á stein, án þess að nokkur trygging sje fyrir framhaldi á starfsemi þeirra. Að minsta kosti býst jeg við, að margur maðurinn í Hafnarfirði óskaði nú þess, að sá maður, er þar var helsti atvinnurekandinn um tíma, hefði aldrei þangað komið. Hv. 2. þm. Reykv. drap á, að okkur vantaði fje til framkvæmda, og yrðum að fá erlent fjármagn, fyrst innlent skorti. En þótt þetta sje satt, að okkur skorti nægilegt fjármagn, þá er jeg ekki í vafa um, að misráðið er að fá hingað erlenda menn með erlent fje til atvinnurekstrar í gróða skyni. (JBald: Þeir innlendu reka víst ekki atvinnu sína í gróðaskyni!) Við skulum ganga út frá því, en þar er sá mikli munur á, að með því móti helst fjeð kyrt í landinu, en útlendingar flytja það burt með sjer. Og satt að segja þykist jeg ekki síður hafa talað máli íslensku verkamannanna í þessu efni en hv. 2. þm. Reykv.