27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (3504)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Halldór Stefánsson:

Jeg skal ekki lengja umræður, en vildi aðeins drepa á atriði í ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg bar saman í fyrri ræðu minni þær till., er fram hafa komið, hvað viðvíkur fyrirtækjum í Hafnarfirði og á Austurlandi, sem miða að því að bæta atvinnuhættina og efla atvinnulífið á báðum stöðum. Jeg benti á ósamræmi í atkvæðagreiðslunni í gærkveldi, og gat þess, að jeg hefði búist við, að menn yrðu sjálfum sjer samkvæmari. Þetta kallaði hv. 1. þm. S.-M. hrossakaup. Jeg verð nú að segja það, að jeg hefi haft heldur ímugust á hrossakaupum, jafnvel öllum hrossakaupum, og þó einkum þeim, sem kend eru við Alþingi. En ef þetta eru hrossakaup, þá sýnist mjer þau ekki svo sjerlega óhæfileg.

Jeg vil þá aftur á móti beina því til hv. þm. (SvÓ) og annara hv. þm., að gæta þess að láta það ekki ráða atkvæði sínu um sambærileg mál, hvort um er að ræða fyrirtæki á Austurlandi eða Suðurlandi.