27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í C-deild Alþingistíðinda. (3505)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Sigurjón Jónsson:

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði eitthvað á þá leið, að þeir, sem greiddu þessu frv. atkvæði sitt, sýndu af sjer óforsvaranlegt andvaraleysi, þar sem ábyrgðin væri alt of stór og áhættan því of mikil. Mjer finst þetta nú nokkuð sterkt að orði kveðið.

1. grein frv. kveður ríkt á um að vernda hag ríkissjóðs, eftir því, sem hægt er, og er ákveðið um, að hann taki ekki að sjer ábyrgðina, nema „gegn viðunanlegri tryggingu og veði“, eins og stendur þar. Þegar sjútvn. bar málið fram, var tilætlun hennar, að fullkominnar varúðar væri gætt í þessu efni. Fjelögin leggi fram fje sjálf. Það hafa komið fram till. um, að fjelögin legðu fram 100 þús. kr. hvert, og ef vel yrði á stað farið og gott skip keypt, sem yrði að gerast í samráði við stjórnarvöldin, þá verður ekki sagt, að engin trygging sje fyrir hendi, og fyrstu árin ætti þetta að nægja. (SvÓ: Ef eitthvað fer þá ekki í súginn.) Jeg býst ekki við, að öll fjelög græði, þótt hv. 1. þm. S.-M. segi, að tóvinnufjelögin geri það, en jeg hygg ekki, að hann hafi neina sjerstaka ástæðu til þessara orða sinna. (SvÓ: fer út). Má hv. 1. þm. S.-M. heyra orð mín! (SvÓ: Þarf ekki). Jeg held, að hv. 1. þm. S.-M. hefði átt að segja með fyrirvara, að hann þyrfti ekki að heyra orð mín, eins og hann skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara, og eins það, að nefndin væri klofin, sem hún þó sannarlega er. Þótt hv. þm. sje hræddur við Englendinga, að þeir muni setja oss stólinn fyrir dyrnar, að því er snertir ísfiskinn, þá hygg jeg, að hann ætti að vita það, að ísfiskurinn er yfirleitt enginn sjerstakur gróðavegur fyrir útgerðina, að dómi flestra útgerðarmanna. Annars hefði hv. þm. átt að enda, eins og hann byrjaði, — með fyrirvara.