24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (3510)

1. mál, fjárlög 1925

Jörundur Brynjólfsson:

Út af fyrri ræðu minni verð jeg að drepa á tvö atriði, sem mjer láðist að geta þá um.

Hið fyrra þeirra er skrifstofukostnaður og aðstoð vegamálastjóra. Eftir fjárlagafrv. stjórnarinnar er þessi kostnaður 27 þús. kr., en fjvn. hefir fært hann niður í 23500 kr. Þykir mjer þetta býsna mikill umsjónarkostnaður, þegar þess er gætt, að allar framkvæmdir eru lagðar niður. Í sambandi við þetta vil jeg vekja athygli hæstv. stjórnar á því, hvort ekki færi betur að því, að smiðja ríkissjóðs ynni að nauðsynlegum aðgerðum á tækjum landsins, en að þeim yrði ekki komið fyrir í smiðjum einstakra manna. Vænti jeg þess að stjórnin kippi þessu í lag. Einnig vil jeg geta þess, að mjer finst fullrífleg fjárhæð fara til umsjónar með vitamálum landsins. En það má vera, að ekki verði komist að með minna. Til þessara tveggja stofnana ganga, til býsna lítilla starfa, samkvæmt till. fjvn. 40–50 þús. kr.

Þá kem jeg að háttv. þm. Barð. (HK). Hann kvaðst ekki hafa vitað um, hvernig var ástatt um sölu Geysishússins. Vísa jeg í því efni til ræðu fyrri þm. Árn. á síðasta þingi. Þessi hv. þm. Árn. hafði allmikil afskifti af sölu hússins og benti á, að heppilegt væri, að það yrði notað til læknisbústaðar, þar eð það kæmi að mjög litlum notum. Jeg veit, að hjeraðsbúum hefir verið boðið húsið, en þeim ekki dottið í hug að óska eftir því. Og enda þótt þeir hefðu óskað eftir því og einhverjum háttv. þm. þætti þetta óheppileg ráðstöfun, væri engin meining að refsa hjeraðsbúum með því að synja þeim um rjettmætan styrk til hússins. (HK: Það hefir engum dottið í hug að refsa þeim). Jú, þeir háttv. þm., sem greiða atkv. á móti till. minni, gera það. Háttv. þm. kvað mig ekki hafa minst á verðhækkun síðan húsið var bygt. Skírskota jeg í því efni til skrifara þingsins. Jeg vænti þess, að þeir nái það nákvæmlega ummælum manna, að unt sje að sjá helstu atriði, sem menn taka fram í ræðum sínum. En þótt jeg hefði ekki minst á þetta, skiftir það engu máli. Skal jeg nánar gera grein fyrir því. Úr því efnið úr húsinu var mælt og virt eins og það væri nýtt þegar salan fór fram, þá liggur í augum uppi, að þetta skiftir engu máli. Í þessu efni skjátlaðist háttv. frsm. líka Jeg fer svo ekki nánar út í þetta atriði.

Hv. þm. Barð. (HK) kvað innbúið hafa verið selt mjög vægu verði. Jeg skal ekkert um það segja, en jeg býst við, að þetta megi sjá í umræðunum frá síðasta þingi. Hv. þm. drap einnig á óánægju, sem hefði átt að koma fram út af þessari sölu. Já, jeg held, að þingtíðindin beri þess vott. Hitt tel jeg sannað, að það var engin goðgá, þó að húsið væri selt.

Þá kem jeg að hv. frsm. Það, sem kom fram í hans ræðu, fór í líka átt og nál. hv. fjvn. Hann lagði mjer orð í munn og bygði á þeim röksemdafærslu sína. En orð þessi hafði jeg aldrei látið mjer um munn fara. Höfuðatriðið er, að efnið var metið sem væri það nýtt, en dregið frá fyrir fyrningu. Einnig var kostnaður við að rífa húsið og flytja efnið að læknissetrinu, það sem hann var meiri heldur en ef efnið hefði verið flutt af Eyrarbakka.

Háttv. frsm. drap á, að landlæknirinn hefði enga ákveðna tillögu gert um styrk til sjúkraskýlisins. En mjer er kunnugt um, að landlæknirinn hefir lagt bestu meðmæli með styrk til læknisbústaðarins og sjúkraskýlisins. Ef til vill hefir háttv. fjárveitinganefnd ekki þótt eins hagfelt fyrirkomulag hjá okkur sem í Borgarfirði, og að við þess vegna eigum að gera okkur ánægða með 1/9 hluta. Fyrirkomulag byggingarinnar á þó að vera svipað; á báðum stöðum á að hita húsin upp með hveragufu. Sá er aðeins munurinn, að hjá okkur er byggingunni lokið, en í Borgarfirði er þetta enn aðeins á pappírnum. Háttv. frsm. gat um, að það væri ekki lagaskylda að greiða þennan styrk. En ef svo hefði verið, hefði heldur ekki þessi leið verið farin til að ná styrknum. Finst mjer hafa komið í ljós í þessum undirtektum fjvn., að hún hafi gert það, sem síst má henda Alþingi, að gera upp á milli hjeraða landsins. Það er að vísu einstaklega þægilegt, þegar menn vilja ekki láta sama ganga yfir alla, að skjóta sjer undir það, að þetta eða hitt sje ekki lagaskylda.

Jeg verð að segja, að eftir því, sem fram er komið um þetta atriði, hygg jeg, að það geti orðið erfiðara fyrir læknishjeruð að afla sjer hjer eftir fjár til sjúkrahúsa, ef þau eru beitt þeim brögðum eftir á, að þau fá annaðhvort engan styrk úr ríkissjóði eða þá ekki nema lítinn hluta kostnaðar. (Frsm. ÞórJ: Alþingi ræður). Það ræður, jeg verð að segja því miður, ef það fer illa með völd sín. Það væri því miklu fremur ástæða til að ákveða fyrirfram, hvílíkum styrk menn megi búast við í þessu efni.

Jeg veit, að ekki hefir verið fyrirstaða að greiða þennan styrk sumum hjeruðum. Fyrir skömmu var t. d. gert lítilsháttar við sjúkraskýli eitt, og fjekst þriðjungur kostnaðar til þess úr ríkissjóði. Eftir því, sem á undan er gengið, tel jeg engan vafa á því, að hefði þetta sjúkraskýli staðið einhversstaðar annarsstaðar, þá mundi máske lítil fyrirstaða á þessum styrk, en jeg tel reyndar óvíst, að öll önnur hjeruð mundu eiga eins mikla von á honum.

Hv. frsm. (ÞórJ) drap á, að jeg mundi ekki vera jafnkunnugur því, sem kom fram í þessu máli í fyrra hjer í hv. deild, eins og þeir, sem sæti áttu á því þingi og hlýddu á umræðurnar um Geysishúsið. Jeg hefi þó lesið allar umræðurnar um þetta, og verð jeg að segja það, að ýmsir þingmenn ljetu þá þau orð falla um þetta mál, sem eru þeim síst til vegsauka. Jeg tek ekki að mjer að verja gerðir þess ráðherra, er rjeði sölu hússins, eins og háttv. þm. Barð. (HK) kvað mig gera, því að það mál er mjer alveg óviðkomandi. En annað mál er það, að þegar jeg sje hallað rjettu máli og það er gert í sambandi við mál, er hjer liggur fyrir, þá vil jeg láta sannleikann koma í ljós. Hirði jeg ekki, hvort sumum mönnum kann að líka það betur eða ver.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta efni, en skýt því undir rjettarmeðvitund hv. deildar, hvernig hún fer með þessa brtt. mína. Ræður hv. deild því, hvað hún gerir, en gefa skal jeg fyrirheit um það, að þykist jeg ósanngirni beittur, skal jeg láta heyra meira frá mjer um þetta mál, og munu menn þá fá að sjá, hvort jeg þekki ekki sögu málsins á síðasta þingi.