14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (3512)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Þórarinn Jónsson:

Í raun og veru hefi jeg ekki mikið á móti brtt. hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), því að ekki vakir fyrir mjer að ákveðinn verði ósanngjarnlega langur vinnutími, heldur að það verði fastákveðið, hve starfsmenn á skrifstofum ríkisins skuli vinna margar stundir á dag minst. En jeg get alls ekki sjeð, að sá tími, sem farið er fram á í frv. mínu, sje of langur, þar sem upplýst er, að starfsmennirnir vinna nú lengri tíma á degi hverjum, þó að öll vinnan sje ekki á skrifstofunum. En jeg vil einmitt, að unnið sje á sama stað, en ekki hingað og þangað. Ef menn vinna hinn ákveðna tíma á sama stað, gerir það starfið frekar að manns eigin, og eykur áhugann. Annars skal jeg láta óátalið, hvort frv. verður samþ. óbreytt eða brtt. hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) verður samþykt.