07.05.1924
Sameinað þing: 7. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2391 í B-deild Alþingistíðinda. (3518)

Þinglausnir

forseti (JóhJóh):

Þá er nú störfum þessa 36. löggjafarþings þjóðarinnar lokið, og mun það fá sinn dóm sem önnur þing hennar.

Mjer finst, að vjer alþingismenn ættum ekki að þurfa að kvíða svo mjög þeim dómi.

Að vísu hefir þingið ekki verið mjög afkastamikið, og er það ekki tiltökumál, þegar þess er gætt, að á því urðu stjórnarskifti, svo að fráfarandi stjórn fjekk ekki tækifæri til að fylgja fram þeim málum alt þingið, er hún hafði lagt fyrir það, og nýja stjórnin hefir að sjálfsögðu ekki haft tíma til að búa undir og bera fram nema það allra helsta af áhugamálum sínum, sem ekki þoldi bið.

Þetta þing hefir þó samþykt tvo allmikla lagabálka, er jeg tel allmildu máli skifta, og á jeg þar við vegalögin og lögin um nauðasamninga.

Hitt tel jeg þó meira um vert, að þetta þing hefir samþykt fjárlög án tekjuhalla, sem jeg tel óhætt að reiða sig á, að muni bera sig, þannig að ekki muni verða tekjuhalli á árinu 1925, sem þau gilda fyrir, og hefir það sjeð ríkissjóði fyrir tekjuauka á yfirstandandi ári, sem nauðsynlegur var til þess, að þjóðarbúskapurinn í ár geti borið sig og tekjuhalli verði ekki á landsreikningnum fyrir árið 1924.

Þá er þess að geta, sem jeg tel mest um vert, að stjórn vorri hefir nú tekist, meðan þing stóð yfir, að koma samningunum við frændur vora Norðmenn í kjöttollsmálinu í það horf, að vjer munum geta vænst farsælla úrslita í því máli áður en langt um líður.

Mjer finst því útlitið ekki nærri eins ískyggilegt nú og í byrjun þessa þings, og ef hamingjan gefur, að tíðin fari nú að batna og að hlýna í veðrinu, finst mjer það ekki slæmt, því að í vetur hefir aflast vel og íslenskar afurðir hækkað í verði.

Jeg leyfi mjer að óska háttv. þingmönn um utan Reykjavíkur góðrar heimferðar og gleðilegrar heimkomu og oss öllum þess, að vjer megum hittast heilir og hressir á næsta þingi og að útlitið verði þá ekki eins ískyggilegt og í byrjun þessa þings.

Þá stóð upp forsrh. Jón Magnússon og las upp konungsumboð sjer til handa til þess að slíta Alþingi.

Samkvæmt því umboði lýsti forsætisráðherra yfir því í nafni konungs, að þessu þrítugasta og sjötta löggjafarþingi Íslendinga væri slitið.

Stóð þá upp Klemens Jónsson, 2. þm. Rang., og mælti:

Lengi lifi konungur vor, Kristján hinn tíundi!

Tók þingheimur undir þau orð með níföldu húrrahrópi.

Var síðan af þingi gengið.