20.02.1924
Neðri deild: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

2. mál, fjáraukalög 1922

Fjármálaráðherra (KlJ):

Jeg þar ekki að fylgja þessu fjáraukalagafrv. úr hlaði með mörgum orðum. Ástæður þær, sem fyrir því liggja, má, eins og venjulegt er, finna í landsreikningnum 1922 og athugasemdum við hann, sem jeg vona, að hv. þm. hafi nú fengið.

Það eru aðeins tvö atriði, sem jeg vildi minnast á. Eins og sjest á 5. gr. d-lið, þá hefir fjárveitingin til hraðskeyta- og talsímasambands farið allmikið fram úr áætlun. Um þetta atriði skrifaði jeg landssímastjóra brjef og bað hann um upplýsingar um ástæðurnar fyrir þessu. Hann hefir nú svarað aftur í mjög ítarlegu brjefi, sem jeg hefi hjer meðferðis, og verður fjhn. að sjálfsögðu gefinn kostur á að kynna sjer það. Þó má geta þess, að aðalhækkunin liggur í því, að þessi liður hefir jetið aftur fyrir sig, ef svo má að orði kveða, þannig, að talsvert af áætlunarfjenu frá 1921 hefir ekki notast það ár, en komið til útborgunar á næsta ári, 1922.

Hitt atriðið, sem jeg vildi leyfa mjer að minnast á, er út af aths. yfirskoðunarmanna á bls. 70, gr. 34 í landsreikningnum, að rjettara hefði verið að leita aukafjárveitingar fyrir nokkrum gjöldum, sem talin eru í gr. 11, b. En þar sem m. a. sum af þessum gjöldum eru í eðli sínu lögboðin, þá fæ jeg ekki sjeð, að þetta sje rjett. Og jafnvel þó að það hafi viðgengist áður, þá er mín skoðun sú, að þó að eitthvað, sem er rangt, hafi tíðkast, þá sje ekki nauðsynlegt að halda því áfram. En jeg beini athygli hv. fjhn. að þessu atriði, því verði hún sammála hv. endurskoðunarmönnum, verður að koma þessum upphæðum inn í frv.

Finn jeg svo ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um frv. þetta, en leyfi mjer að leggja það til, að því verði vísað til fjhn.