01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Fjármálaráðherra (KlJ):

Þegar jeg samdi fjárlagafrv. fyrir 1925, þá ætlaði jeg mjer ekki að leggja fram tekjuaukafrumvörp; ætlaði að láta mjer nægja fjárlagafrv. En við nánari athugun sá jeg, að þar sem íslenska krónan fór sílækkandi í jan. og febr., þá yrði ekki hjá því komist að gera einhverja tilraun til að auka tekjurnar. Eins og ástandið er og jeg hefi lýst því í ræðu minni um fjárlögin, þá bjóst jeg við, að þingið myndi leggja fyrir mig þá spurningu, með hverju móti jeg hefði hugsað mjer að rjetta við hag ríkissjóðsins. Því það var mjer ljóst, að menn myndu sjá, að ekki yrði framvegis hægt að halda honum í horfinu með því einu að hefta allar verklegar framkvæmdir; slíkt er aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Þessari spurningu hefi jeg nú svarað með frv. þessu. Nú getur hv. Alþingi gert hvort sem það listir, að samþykkja það eða fella. Jeg skal játa, að mjer var það hálfnauðugt að auka enn á skattabyrði almennings, því að mjer er fyllilega kunnugt um það, hve hagur almennings er vondur. En þar sem verðgildi íslensku krónunnar er altaf að falla, þá verður eitthvað af að ráða. Sparnaður sá, sem fæst við embættaniðurlagningu, er, eins og menn nú hafa sjeð, mjög seinvirkur. Það er því ekki um aðra leið að ræða en þessa, sem allar aðrar þjóðir hafa nú neyðst til að fara, að auka skattana. Skal jeg t. d. benda á Norðmenn, sem verða nú að gjalda alla opinbera skatta í gullkrónum. Þótt jeg hafi álitið það skyldu mína að auka tekjur ríkissjóðsins, þá skal jeg taka það fram, að mjer er alls ekki fast í hendi með þetta frv. Ef einhver getur bent á aðra leið, sem betri er til að ná sama takmarki, þá mun jeg fallast á hana. Jeg skal annars ekki fara út í einstök atriði frv., heldur láta mjer nægja að vísa til greinargerðarinnar. Jeg vil þó benda á það, að þótt þetta frv. verði samþykt, þá er tollur á kaffi og sykri þó talsvert lægri en víða á Norðurlöndum, einkum á Finnlandi, og sje jeg ekki betur en við ættum að geta borið það eins og þeir. Jeg vil að lokum taka það fram, að það er skylda mín sem fjrh., sem hjer ræður, en ekki nein löngun til að íþyngja fólki með þungum sköttum.

Jeg legg svo til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. fjhn.