28.02.1924
Neðri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Bjarni Jónsson:

Jeg vil þakka hæstv. stjórn frv. þetta. Er það að mínu viti sú eina tilraun, sem komið hefir fram af viti og sanngirni til þess að afla landinu tekna. Hitt alt er barnaskapur og — það er óþarft að nefna nöfn — þau koma fram þegar tímar líða. Það er sjálfsagður hlutur, að landssjóður getur ekki tekið við öllum gengismun, að það er ekki hans að bera allan skaðann af verðfalli krónunnar. Þetta tekjuaukafrv. fer ekki fram á annað en að fá tekjurnar með því gildi, sem þær höfðu er þær voru áætlaðar. Hefði verið heppilegast, að frv. festi tekjur landsins við lög, þannig að þær skyldu ætíð gjaldast með því gengi, er þeim var áætlað. Mætti vel finna upp einhvern þann ramma á slíkt frv., sem hægt væri að færa gildið eftir. Því vitanlegt er, að altaf er reiknað með þeirri krónu, sem þá gildir er gjaldið er ákveðið, en ekki farið eftir framtíðarinnar krónu.

Jeg skil ekki þá menn, sem ætlast til þess, að landsstjórnin hlaupi hvenær sem er undir bagga með mönnum og bjargi í atvinnuleysi, en eru á móti þessu frv. Þeir geta þó ekki ætlast til, að landssjóður geti slíkt, ef hann stendur tómur, en það gerir hann, ef hann fær ekki að taka sínar lögákveðnu tekjur.

Jeg tel, að rjettast væri að margfalda tekjuupphæðirnar með álnum og meðalálnum með hlutfallinu milli líðandi árs og meðalálnar um 30 undanfarin ár; í ár er er það sem næst 14:9 (134:89). Ætti að margfalda allar tekjur landssjóðs með því. Ætti nefndin, sem um málið fjallar, að koma fram með einhverja höfuðreglu, hvernig tekjur ríkissjóðs skuli reiknaðar. Og skyldi helst annað verðmæti viðhaft en krónan, sem nú er mjög óstöðug, þótt svo líti út, sem hv. þing viti ekki af því.

Jeg leiði hjá mjer harmagrát hv. 2. þm. Árn. (JörB). Honum og hans nótum verður ekki erfitt að hrópa á Alþingi: Komdu og vertu húsbóndi á hverju heimili. Vertu húsmóðir og skamtaðu öllum mat, passaðu að skórnir krakkans míns sjeu ekki of dýrir eða fötin hans! — Hvað ætli Alþingi eigi að verða á endanum! En jeg held hv. þm. hafi nóg að gera annað en að hrópa slíkt; þeir geta heldur ekki einu sinnu slátrað 1–2 mönnum hvað fegnir sem þeir vilja. Hvað ætli þá yrði úr þeim, ef þeir ættu að verða húsbóndi og húsmóðir á hverju heimili; þeir þyrftu þá víst að sitja hjer meira en annaðhvert ár.

Nei, landsmenn gæta sín best sjálfir. Það þýðir ekkert að vera að banna þeim eitt eða neitt. Kýrnar jeta heldur moðið úr básunum við hliðina á sjer en töðuna í sinni jötu. Að banna mönnum eitthvað er til þess eins, að þeir sækjast mest í það. Enda vita menn, að strandlengja þessa lands er óverjandi smyglurum. Besta ráðið er að leggja hátoll á þær vörur, sem ónauðsynlegastar eru. Menn gera sjer ekki eins mikið far um að svíkjast undan tollunum eins og að ná í bannvöruna. Jeg hygg jafnvel, að landsmenn muni fljótt, án hátolla, læra að haga sjer svo, að þeir verði ekki lengur skuldugir við útlönd.

Gengi það, sem nú er, er tilbúið, en ekki það rjetta. Orsakirnar margar og margvíslegar og ekki gott að nefna þær helstu. Menn komast ekki inn í fjármál heillar þjóðar eins og þeir renna beint af augum niður brekku. Til fjármálaþekkingar þarf glöggskygni á hag manna og líferni.

Jeg skora á nefndina að gera almennan mælikvarða, sem haga skuli tekjukalli landsins eftir, svo tekjurnar verði ekki hálfu minni en ætlað var. Hvort þeir fylgja mínum tillögum er mjer sama, ef aðeins tilgangurinn næst með góðu móti.

Einn hv. þm. hneykslaðist á brtt. um að undanþiggja kol og salt þessari tollhækkun. En þessi undanþága er ekki bygð á því, sem hann ætlar, heldur á því, að kola- og salttollurinn var hækkaður til þess að vinna upp skaða, sem ríkissjóður eða landsverslun beið á verslun með þessar vörutegundir. Nú er það tjón að fullu bætt, en hækkunin helst að nokkru leyti ennþá. (Margir: Þessi tollhækkun er fallin niður). Nei, kolatollurinn er nú 3 kr. í stað 1 kr., og það er í óleyfi, að tollhækkunin er látin standa enn. Þetta er til þess að eyðileggja annan aðalatvinnuveg landsins að óþörfu.

Annars hefi jeg með mikilli undrun hlýtt á margar fjármálaræður hjer á þingi. Það er eins og menn ímyndi sjer, að þeir sjeu uppi á reginfjöllum eða á hafsbotni eða í iðrum jarðar, þar sem enginn getur hlýtt á mál þeirra og skilið. Þeir halda hrókaræður um fjárhaginn, að hann sje á þeim heljarþremi, að ekki sjeu nú til þau örþrifaráð, að til þeirra sje ekki nauðsynlegt að grípa til þess að rjetta hann við. Þetta segja þeir afdráttarlaust í viðurvist sendimanna annara þjóða, hrópa þetta í öll blöð, og síðan senda þeir menn til útlanda til þess að fá lán. Þetta er fjármálaviskan. Það væri afsakanlegt, ef þeim gengi til sannleiksást, en svo er ekki. Helmingurinn er skrök og helmingurinn kjósendadekur. Þessum mönnum væri sæmra að þegja.