28.02.1924
Neðri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jón Baldvinsson:

Jeg vil svara hæstv. atvrh. (KlJ), að það var rjett, sem jeg sagði, að núverandi stjórn hafi ætlað að leggja áherslu á að stöðva gengið og jafnvel hækka það. Þetta var fyrsta fyrirheitið, sem stjórnin gaf, þegar hún tók við völdum.

Hæstv. atvrh. beindi því til mín, að jeg hafi ekki gert neinar tillögur um ráðstafanir til að rjetta við gengið. En hæstv. stjórn fjekk alt þetta mál til meðferðar á síðasta þingi, og stendur hún ólíkt betur að vígi til að ráða fram úr því en einstakir þingmenn, að minsta kosti heldur en þeir, sem minst ítök eiga í þingflokkunum. Hún hefir yfirstjórn bankanna og allra peningamála landsins. Hæstv. stjórn getur ekki heimtað af einstökum þingmönnum, að þeir ráði bót á þessum vandræðum, þegar hún sjálf, með alt sitt vald, er ekki megnug um að gera neitt, sem hún þó þóttist ætla að vinna að, þegar hún tók við völdum. Hæstv. stjórn hefir ekki skýrt þinginu frá aðgerðum sínum til að bæta gengið, en gerir það væntanlega bráðlega. En þar sem það er tekið fram í ástæðunum fyrir frv., að það sje fram komið vegna gengisfalls krónunnar, verður ekki komist hjá því að minnast á gengismálið í sambandi við þetta mál.

Hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) vill ganga lengra í þessum efnum en hæstv. stjórn hefir gert, og má vera, að hann fái bráðum ástæðu til þess. Hann er í fjhn., og mun bráðlega sjást, hvaða tillögur nefndin gerir í þessu máli.

Hv. þm. var að mælast til þess, að umræðurnar yrðu ekki lengdar úr hófi fram. Þó gat hann ekki stilt sig um að gefa tilefni til frekari umræðna. Hv. þm. er sá eini, sem jeg hefi heyrt hjer á þingi gefa einstökum mönnum sök á fjárhagsástandi ríkisins. Hann beindi því til mín, að jeg væri að nokkru leyti í sökinni. Jeg skal óhræddur standa við atkvæði mitt um fjárveitingar úr ríkissjóði. En þó að jeg kunni að hafa greitt atkvæði með fleiri fjárveitingum en hv. þm., munu áhöld um, hvor okkar hefir stutt hærri fjárupphæðir og þarflegri. Jeg hygg, að jeg þoli vel þann samanburð. Jeg minnist þess, að hv. þm. átti á síðasta þingi frumkvæði að því, að hálaunað og óþarft embætti var stofnað, þó að hann kunni ef til vill að óska núna, að þetta embætti hefði aldrei orðið til. (JÞ og KlJ: Þetta er ekki rjett). Hv. þm. hefði ekki átt að koma með þetta, ef honum var ant um, að umræðurnar lengdust ekki að óþörfu.

Hv. þm. Dala. (BJ) þarf jeg ekki að svara mörgu. Jeg verð þó að leiðrjetta það, er hann sagði um kolatollinn, og sje brtt. hans bygð á því, að tollhækkunin á kolum gildi enn, þá er hún bygð á röngum grundvelli. Hækkunin, sem gerð var vegna taps ríkissjóðs á kolaversluninni, er nú úr sögunni, en sú hækkun, sem hv. þm. gat um, er ennþá eldri.

Annað atriði í ræðu hv. þm. Dala. gefur ástæðu til nokkurra athugasemda. Hann taldi sjálfsagt að samþykkja þetta frv., en síðar í ræðunni vildi hann vefengja, að íslenska krónan ætti að standa svo lágt, sem hún gerir, og gaf í skyn, að gengið væri lengra en vera bæri. Ef auðið yrði að sanna þetta og kippa því í lag, getur verið, að hjer sje verið að fara fram á óþarfa tollhækkun, því að þetta frv. er einmitt bygt á verðfalli því, sem nú er orðið á íslensku krónunni.