28.02.1924
Neðri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jón Baldvinsson:

Þó að laun þessa eftirlitsmanns sjeu ekki að síðustu greidd úr ríkissjóði, eykur embættið samt útgjöld landsmanna. Jeg skil ekki annað en að bankarnir og líkar stofnanir muni hafa einhver ráð til að ná þessum kostnaði aftur hjá þjóðinni.

Hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) var að reyna að hreinsa sig af stofnun eftirlitsmannsembættisins. Það er ef til vill rjett, að frv. hafi verið flutt að undirlagi hæstv. forsrh. (SE). (Atvrh. KlJ: Það var tekið fram í fyrra). En þar sem hæstv. stjórn leitaði til hv. 1. þm. Reykv., munu ekki margir aðrir hafa viljað verða til að flytja frv. Annars var þetta ekki aðalatriðið, hvort hv. þm. hefði átt frumkvæði að frv., heldur hitt, hvor okkar ætti meiri sök á óþarfa eyðslu á landsfje. Hann var að bregða mjer um bruðlun, og því gerði jeg þennan samanburð. En nú vill hann auðvitað þurka þetta af sjer, síðan hann komst í þetta mikla íhald.