15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg tók ekki fyr til máls af því, að jeg beið eftir, að flm. brtt. á þskj. 67 ljeti til sín heyra og að hv. frsm. nefndarinnar vikju að henni.

Jeg hefi ekki gert neina brtt. við frv. við 1. umr. þess, en eins og jeg hefi áður bent á, er eðlilegt, að ef ein vörutegund er undanþegin þessum hækkaða tolli sjerstaklega, þá muni fleiri slíkar á eftir koma, og má þá svo fara, að þinginu reynist erfitt að stemma stigu fyrir slíkum undanþágum, þegar gáttirnar eru einu sinni opnaðar.

Jeg hefi samt ekki ennþá komið fram með brtt. við frv. við þessa umræðu, því að jeg vildi fyrst sjá, hvernig hv. deild og sú nefnd, sem um málið fjallar, tæki þessari brtt. En verði þær undanþágur, sem nú eru komnar tillögur um, samþyktar, þá mun jeg koma með brtt. við 3. umræðu um að undanþiggja líka þær vörur, sem landbúnaðurinn sjerstaklega þarf á að halda, en lenda undir þessa hækkun. Geri jeg það af þeim ástæðum, að vjer verðum að ganga út frá, að grundvöllurinn undir vörutollslöggjöf vorri sje rjéttur.

Að lokum get jeg tekið undir það, að það er með óljúfu geði, sem jeg samþykki þetta frv. Fult samræmi er ekki í frv., því að ef þessi tollaukning á að vera uppbót á gengislækkuninni, þá er enginn efi á því, að aukningin er minni en sem svarar gengislækkuninni, eins og hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) tók rjettilega fram. En að vjer þurfum að fá þessa tekjuhækkun einhversstaðar frá, mun öllum geta komið saman um. Ef þessa leið á að fara, fyndist mjer því rjettara að ná fyllra samræmi, og vildi því leyfa mjer að skjóta því að hv. 1. þm. Reykv., sem er form. fjhn., hvort honum fyndist ekki ástæða til að taka þetta mál til nýrrar athugunar með hliðsjón af þessu atriði.