15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jón Baldvinsson:

Líklega er engin þjóð ver stödd en við Íslendingar í því tilliti, að við þurfum að flytja inn meiri nauðsynjar til lífsþarfa okkar en aðrar þjóðir. Því eru innflutningstollar ranglátari hjá okkur en öðrum og koma harðara niður. Þetta verður vel að athuga, þegar verið er að bera okkur saman við aðra í tollmálum. Framleiðslan í voru landi er svo fábreytt, að meginhluta nauðsynjavaranna verður að kaupa frá öðrum löndum.

Viðvíkjandi orðalaginu á frv. stjórnarinnar, þá finst mjer dálítið leiðinlegt, hvernig þessi tollur er á lagður. Í því virðist mjer liggja vantraust á stjórn og þingi í því, að við getum í náinni framtíð rjett við eða stöðvað gengi íslensku krónunnar. Hjer er stjórninni veitt heimild til þess að innheimta ýms gjöld og tolla með 25% álagningu meðan sterlingspund standi í 25 kr. eða þar yfir. Hjer finst mjer hæstv. stjórn hafa gefist upp við sín góðu áform, að reyna að bjarga við genginu, slept því fram af sjer og hugsa nú aðeins um það að hækka tollana, hvað sem krónunni líður. Jeg held, að við þurfum ekki að hafa slíka ótrú á íslenskum peningum. Jeg held, að þeir standi ekki svo illa í raun og veru. Og það væri ólíkt heppilegra, ef stjórnin og bankarnir gætu komið í veg fyrir gengishrunið, og þar með það, að ríkissjóður þyrfti sívaxandi tekjur vegna verðfallsins, ef svona fer fram.

Það hefir komið hjer fram, eins og jafnan, að einstakar stjettir reyna að hrinda byrðunum af sjer. Útgerðarmenn vilja skilja undan þessum lögum toll á kolum og salti til útgerðar, en láta hann svo lenda á fátækasta hluta þjóðarinnar, verkalýðnum, sem býr við atvinnuskort og fátækt, en þarf þó að nota þessar nauðsynjar. Þar á ekki að sýna miskunn. Hver hrindir af sjer; og í þá átt virtist mjer fara ræða hv. þm. Ak. (BL). Hann var að mæla á móti því, að gengið yrði lengra í því að leggja á hina efnaðri menn. En jeg sje ekki, hvar taka á skatta í ríkissjóð, ef ekki þar, sem peningarnir eru til. Þannig virðist mjer sá maður, sem hefir 20000 kr. í tekjur, betur fær um að borga 10000 kr. til ríkisins heldur en verkamaður, sem hefir 2000 króna tekjur, að borga 2 kr. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. Ak. þyki þetta órjett, en jeg lít svona á það.

Jeg mun eins og áður leggja á móti því, að þessi viðbót við tollana verði samþykt. Mjer finst það sje gert út úr vandræðum, til að taka peninga á þann hátt, sem menn ímynda sjer, að hægast sje að ná þeim, án tillits til þess, hvort það kemur rjettlátlega niður eða ekki. Mjer finst hæstv. stjórn skilja illa við, að hafa ekki reynt að rjetta gengi krónunnar, en skila svo í lokin þessu frv. um að hækka stórkostlega toll á aðfluttri vöru, sem aðallega kemur niður á fátækasta hluta þjóðarinnar.