15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) gaf mjer ástæðu til að standa upp. Hann tók það fram, að frv. lýsti vantrú stjórnarinnar á því, að geta stöðvað gengi krónunnar, og að stjórnin hefði brugðist loforði sínu í því efni. Jeg verð að segja, að jeg hefi ekki heyrt og veit ekki til, að komið hafi fram neitt þjóðráð í þessu efni frá einum eða neinum, til þess að stöðva fall krónunnar eða auka gildi hennar, annað en þá það að taka lán. Jeg geri líka ráð fyrir, að það hafi vakað fyrir háttv. þm., því að hann sagði, að ef stjórnin og bankarnir legðust á eitt, þá mundu þau geta stöðvað gengið. En það hlýtur að eiga við lán. Jeg verð nú að segja, að við erum svo sokknir í skuldir, að við megum ekki við því að taka enn lán. Við eigum nógu erfitt með að borga vexti og afborganir af þeim skuldum, sem fyrir eru, þó ekki sje bætt við nýju láni. Ef lánstraust þjóðarinnar við útlönd leyfir, þá er auðvitað hægt að bæta við skuldina; því neita jeg ekki. En í mínum augum er það frágangssök að auka skuldirnar eingöngu til þess að hefta fall krónunnar. Það er auðsjeð, hvernig þá fer. Meginpartur lánsins gengur strax til þess að borga skuldir bankanna og einstakra manna við útlönd, ef til vill fyrir óþarfavöru. Svo kæmi heill hópur af vörubjóðum, dönskum og norskum, til að bjóða vörur og credit á ný. Eftir gamalli reynslu mundi þetta verða notað og inn mundi streyma kynstur af óþarfavöru, sem svo yrði að borga seinna. Að nokkrum tíma liðnum væri svo lánið uppgengið og alt sæti við sama, nema landið væri að þessu leyti skuldugra en áður.

Jeg las það í Alþýðublaðinu nýlega, að það væri undarlegt, að 42 menn skyldu sitja svo lengi á Alþingi og geta þó ekki lagað það, sem háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) gæti einn lagað í einum rykk. Mjer er ekki kunnugt um, að þessi hv. þm. hafi komið fram með neitt ráð; en jeg vænti þess og veit, að ef hann hefir einhver slík patentráð, þá situr hann ekki lengur á þeim.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að stjórnin hefði ekki gert skyldu sína í gengismálinu. En jeg er viss um, að engin stjórn hefði getað stöðvað fall krónunnar, sem orðið hefir á þessu síðasta ári fyrir rás viðburðanna og óviðráðanlegra orsaka. Jeg er ekki að halda því fram, að við sjeum svo mjög miklir fjármálamenn, Íslendingar, en Danir eiga góða fjármálamenn, og þeir hafa ekki getað reist rönd við falli sinnar krónu, þrátt fyrir hinn mikla útflutning. Og þeir hafa tekið stórt gjaldeyrislán, sem nú er uppetið, án þess að koma að tilætluðum notum. Jeg get því ekki sjeð, að stjórnin eigi neitt ámæli skilið; því verð jeg að mótmæla.

Að lokum vil jeg taka undir með hv. frsm. meiri hl. (JÞ), að fari svo, að tekjuafgangur verði, þá er alls ekki meiningin, að hann verði gerður að eyðslueyri nje varið til einhverra fyrirtækja, hversu nauðsynleg, sem þau annars kunna að þykja, heldur að það verði handbært. Það er fullkomin nauðsyn, að ríkisfjehirðir hafi meira fje undir höndum en stundum hefir verið að undanförnu.