15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Hákon Kristófersson:

Það má með sanni segja, að það sje ógeðslegt mál, sem hjer eru til umræðu, og best að leggja sem fæst til þess. En hjer hafa orð fallið, sem jeg get ekki látið vera að lýsa minni skoðun á.

Þetta mál er komið frá stjórninni af brýnni þörf og nauðsyn, til þess að bæta fjárhag ríkisins, að sagt er. Þessu skal jeg ekki mótmæla. En þó býst jeg við, að jeg verði að vera á móti málinu í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir. Ef nú á að fara að bæta úr bruðlunarsemi þings og stjórnar undanfarin ár með því að hækka tolla um 25% á nauðsynlegum vörum, sem svo verða 40% hjá kaupmönnum, þá get jeg alls ekki ljeð því mitt fylgi. Tímarnir eru ákaflega erfiðir og krefjast sparnaðar. Og ef jeg sæi, að það ætti að spara á einhverju sviði, t. d. fræðslumálafarganið, þar sem mætti spara 300–400 þús. kr., þá stæði ekki á mjer. Í því er heilbrigð hugsun, að ljetta af slíkri byrði, þegar svo erfiðlega er ástatt eins og nú. Það má líka gera án þess, að þjóðin verði fyrir það á nokkurn hátt fyrir raunverulegum óþægindum, eða með öðrum orðum, henni alveg að skaðlausu. En það, að stjórnin kemur fram með annað eins frv. og þetta, liggur í því, að við kunnum ekki að sníða okkur stakk eftir vexti, eða höfum ekki kunnað það, en erum að apa eftir miljóna þjóðum ýmislegt, sem er okkur langt um megn.

Hv. frsm. meiri hl. (JÞ) talaði um það, að nauðsyn bæri til þess, að málið fengi fljóta afgreiðslu. Vildi víst helst láta afgreiða það frá deildinni í dag, með afbrigðum frá þingsköpum, og grundvallaði þá skoðun á því, að von væri á skipi næstu daga, fullu af vörum; en væntanleg tollhækkun næði ekki þessum vörum nema afgreiðslu laganna væri flýtt. Jeg er nú ekki beint að setja út á þetta. En jeg vil þó spyrja: Hvar er sanngirnin gagnvart þeim verslunarmönnum, sem fá vörur sínar viku eða 12 dögum seinna en þeir, sem fengu sínar vörur með Íslandi síðast? Mjer finst jeg ekki geta gert ráð fyrir, að lögin verði látin ná til þeirra vara, sem komnar eru á afgreiðslustað þegar lögin ganga í gildi. Annars eru nokkrir menn beittir rangsleitni, en gróðinn lendir hjá þeim mönnum, sem nú eru búnir að draga vörur að sjer hjer í Reykjavík. Og þess er ekki að dyljast, að vegna þess að innflutningshöft hafa legið í loftinu undanfarið, hefir vörum verið hrúgað inn og verðið þegar sett mikið upp, án þess að minsta ástæða væri til.

Háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ) gat þess, að till. á þskj. 67, um að hækka toll á kolum og salti, kæmi að mestu niður á öðrum höfuðatvinnuveginum. Það er nú að vísu nokkuð rjett, en því má þó ekki gleyma, að hann kemur líka nokkuð niður á hinum. Mjer virðast hrein vandræði að ganga inn á brtt. engu síður en sjálft frv.

Sem sagt er jeg á móti frv. af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú greint, og af því, að jeg veit, að þessi tollhækkun kemur þyngst niður á fátækasta hluta þjóðarinnar. En gjaldþol almennings er nú svo teygt og togað þegar, að það þolir alls ekki meira.