15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Tryggvi Þórhallsson:

Þetta er aðeins stutt aths. Þó að það sje ef til vill óviðkunnanlegt, að allir beini skeytum sínum til hv. 2. þm. Reykv. (JBald), held jeg að jeg verði að gera það líka, en það skal þó vera í allri vinsemd gert. Hv. 2. þm. Reykv. taldi það vera vandræðafálm að reyna að auka tekjur ríkissjóðs á þennan hátt; en jeg ætla þá aðeins að minna hann á, hvernig verkamenn fara að þegar líkt stendur á fyrir þeim. Er dýrtíðin eykst, koma þeir fram með skýrslur sínar til vinnuveitenda og reyna að sanna þeim með rökum, að kaup þeirra sje of lágt og þeir komist því ekki af með það. Ein helsta sönnunin upp á síðkastið hefir verið gengisfallið. Krónan hefir fallið um 25%. Við þurfum að fá 25% kauphækkun, segja verkamenn. Jeg er alls ekki að hafa á móti þessu. Þetta er algerlega rjettmætt; ef hægt er að sýna fram á, að grundvöllur sá, sem kaupgjaldið var miðað við, hefir raskast, þá eiga þeir heimtingu á breyttu (hærra) kaupi eftir því. En það er þessi sama aðferð, sem ríkissjóður viðhefur nú í þessu frv. Með þessum lögum ætlar ríkissjóður að fá þá uppbót á þeim peningum, sem menn eiga að greiða honum og sem hann hefir mist af vegna dýrtíðarinnar, — gengisfallsins. Þess vegna finst mjer það koma úr allra hörðustu átt, er háttv. 2. þm. Reykv. fer að gagnrýna einmitt þessa aðferð ríkissjóðs.