15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Jeg ætla mjer ekki að lengja að mun þessar umr., sem jeg vona, að nú sje bráðum lokið. En það var viðvíkjandi samlíkingu hv. frsm. minni hl. nefndarinnar (HStef), sem hann hefir nú margendurtekið, að jeg kvaddi mjer hljóðs. Jeg hygg, að þessi samlíking hv. þm., um ríkissjóð sem háa og rismikla yfirbyggingu, en almenning sem ótraustan grundvöll, sje röng og ríkissjóður ekki jafnsterkur og viðamikill eins og hv. þm. álítur. Skuldir ríkissjóðs eru nú um 20 miljón kr. umfram arðberandi eignir, og þó hann njóti ef til vill einhvers lánstrausts, mun þó vera allmjög að því krept. Það má vel vera, að almenningur standi nú ekki föstum fótum, en opinberar skýrslur sýna þó, að árið 1922 áttu um 20 þús. manna um 40 milj. kr. í sparisjóðum, eða um 200 kr. á mann, og er það sem betur fer dágóður fjárhagur, og það veit jeg, að þessar 20 þús. manna í grunninum standa betur að vígi en ríkissjóður. Það er því rangt af hv. 1. þm. N.-M. (HStef) að gera þennan greinarmun á ríkissjóði og almenningi. Hvað eru skuldir ríkissjóðs annað en skuldir landsmanna sjálfra — skuldir almennings í þessum veika grundvelli, sem hann talar svo oft um! Spurningin er aðeins þessi, — á að halda áfram að skulda og auka þar með gjaldabyrði sjálfs sín? Það er hjer, sem jeg vil setja punktinn. Jeg vil láta hætta að auka á skuldabyrði landsmanna. Þá vil jeg og segja hv. 1. þm. N.-M. og hv. þm. Barð. (HK) það, að þeir gera of mikið úr því, að þetta frv. leggi byrðarauka á hinn fátækasta hluta þjóðarinnar. Tollhækkunin kemur og niður á vínföngum, ¼ hluti víntollsins nemur um 100 þús. kr., og ekki bera fátæklingarnir þessa tollhækkun. Sama er um tóbakstollinn: ¼ hluti hans nemur öðrum 100 þús. króna og kemur vart mjög þunglega niður á hinum fátækari hluta þjóðarinnar, eða að minsta kosti ætti hver sá, sem ekki hefir ráð á að borga hina hækkuðu tolla, að fara að eins og hann Jón Þorláksson og hætta að nota alt tóbak. Næst er hækkunin á kaffi- og sykurtollinum, sem nemur alt að 200 þúsundum króna, og getur vel verið, að fátæklingar beri eitthvað af þessum gjaldaauka; en þá er því til að svara, ef þeir treysta sjer ekki til þess, ættu þeir að minka við sig kaffinautnina, og mun þeim þá betur líða á eftir, bæði hvað snertir heilsu þeirra og efnahag. Hvað sykurnautnina snertir, mun hún vera talsvert misjöfn, en jeg hygg, að þeir fátækari spari þar meira en þeir, sem efnaðri eru, og beri því minni hlutann af tollhækkuninni, en þó getur það satt verið, sem haldið er fram af þeim, sem móti eru hækkun sykurtollsins, að fátæklingar beri hann að nokkru leyti. En þegar talað er um byrðarauka fátækari hluta almennings af þessu frv., geri jeg ráð fyrir, að átt sje aðallega við þær vörutegundir, sem allir nota jafnt, ríkir sem fátækir, — kornvörur og kartöflur. Af þessum vörum er nú aðflutt hjer um bil 12 þús. smálestir árlega. Vörutollur nemur því 72 þús. kr., en hækkunin 18 þús. kr. (HK: Það má reikna með því að hækkunin verði meiri en 25%). Jeg skal gjarnan gera ráð fyrir, að hækkunin verði eitthvað meiri á almenningi, eins og hv. þm. Barð. álítur, en jeg veit ekki til annars en að það sje alment siður að leggja mjög lítið á þessar vörur, og auk þess er fullur helmingur af þessum vörum fluttur inn af kaupfjelögum, og fer þá álagningin í sömu vasana og eiga að borga hana. En sje þessi litla upphæð, 18 þús. kr. á ári, einhverjum ásteytingarefni, sje jeg ekki annað vænna en að undanþiggja heldur þessar vörur, ef mönnum væri það þóknanlegra, og losna þannig við allar umræður um það atriði. Þetta munar ríkissjóð engu og landsmenn sjálfa ekki heldur.