15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jakob Möller:

Það eru aðeins nokkur orð til hv. 1. þm. Reykv. (JÞ). Hann vjek að því í fyrri ræðu sinni, að beinu skattarnir væru ekki betri en tollarnir; en í síðari ræðu sinni mintist hann á þessa 40 miljóna kr. sparisjóðseign þessara 20 þúsund manna. Jeg þykist vita, að hann hafi vel athugað, hvernig þessu sparisjóðsfje er varið. Sannleikurinn er sá, að þessar miklu sparisjóðsinneignir, sem safnast hafa mest upp meðan peningarnir voru í minstu gildi, gera erfiðara fyrir að hækka gengið. Þetta veit jeg, að hv. 1. þm. Reykv. hefir athugað alt vel og rækilega. Þarna hafa menn grætt margar verðlitlar krónur með tiltölulega lítilli fyrirhöfn, en nú er verið að erfiða við að koma þeim í meira verð en þær voru í þegar þeirra var aflað, og það er gert með því að leggja þunga tolla á lífsnauðsynjar manna, sem ekkert eiga í sparisjóðum. En væri ekki í raun og veru sanngjarnara að skattleggja sparisjóðseignirnar? Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að ekki munaði um tollhækkunina á matvörum. Jeg veit það, að þessa upphæð munar ekki svo mikið um; en þó er þarna um 25% tollhækkun að ræða, og eins og hv. 1. þm. N.-M. (HStef) tók fram, er það hjer, sem við viljum setja punktinn. Hjer viljum við setja hnefann í borðið og segja: Hingað og ekki lengra með tollhækkanir á nauðsynjavörum. Og þetta ætti að vera því ljúfara fyrir hv. 1. þm. Reykv., að falla frá þessu, sem minna munar um upphæðina fyrir ríkissjóð. Að öðru leyti er jeg honum samþykkur í því, er hann talaði um, að við ættum ekki að vera að auka á skuldabyrði sjálfra vor með auknum skuldum ríkissjóðs.

En jeg var engan veginn að mæla með því að taka nýtt lán, heldur aðeins að vekja athygli á því, að það gæti verið vafasamt, hvort rjett væri að auka mjög skattabyrði almennings á svo erfiðum tímum, sem nú eru, til þess að borga af gömlum lánum. Vil jeg benda mönnum á það, að það mun mjög vafasamt, að gengi krónunnar verði rjett við með því móti. Enda er því svo varið, að ef þetta tækist, þá er mismunurinn á genginu tapað fje fyrir ríkissjóðinn. Jeg held fast við þá skoðun mína, að ekki beri á svo erfiðum tímum að leggja áherslu á það að borga af skuldum. Það verður fyrst og fremst að gæta vel að grundvellinum, en hann er gjaldþol landsmanna sjálfra. — Jeg vænti þess annars, að þegar jeg kem fram með brtt. mínar við þetta frv., þá muni hv. 1. þm. Reykv. taka vel í þær, úr því að hann er nú búinn að lýsa því yfir, að þetta muni svo litlu.