17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jakob Möller:

Það voru aðeins örfá orð út af brtt. minni á þskj. 149.

Málið var svo mikið rætt við 2. umr. á dögunum, að jeg geng að því vísu, að menn hafi gert sjer fulla grein fyrir, hvað hjer er um að ræða. Sú er meiningin með brtt. að undanskilja vörutollinn frá gengisviðaukanum. Þessi 25% gengisviðauki af vörutollinum er áætlaður, að óbreyttum innflutningnum, að nemi 200–300 þús. krónum, en eins og frá hefir verið skýrt, þá er það meining fjhn. að koma fram með sjerstakt frv. um nýjan toll á þremur flokkum vörutollsins, þar sem aðallega er um miður nauðsynlegar eða ónauðsynlegar vörur að ræða. Þar má því fá uppbót á tekjumissi þeirra tolla, og er því eiginlega um það eitt að ræða, að undanskilja 1., 2., 4. og 5. flokk vörutollsins frá gengisviðaukanum, en í þeim flokkum eru matvörur og þær vörur, sem nauðsynlegar eru til framleiðslunnar, og auk þess trjáviður.

Brtt. er því í beinu samræmi við álit minni hluta fjhn. á því, að brýnustu nauðsynjavörurnar beri að undanskilja tollinum.

Mestu munar í máli þessu um tollhækkunina á kolum og salti. Hefir áður verið feld brtt. um að undanskilja þessar vörur frá gengisviðaukanum, og er því máske ekki að vænta góðs fyrir þessa brtt. En jeg vil enn leggja áherslu á það, að það er hættulegt að ganga inn á þá braut að hækka aðflutningstollinn á nauðsynlegustu framleiðsluvörunum. Og er það skattafyrirkomulag óþekt um víða veröld, nema hjer, að gera slíkar vörur að skattstofni og gera landsmönnum með því erfitt fyrir að keppa í atvinnuvegum sínum við aðrar þjóðir. Og virtist nær að afnema tollana, sem fyrir eru á þessum vörum, heldur en að hækka þá.

Ennfremur er farið fram á að undanskilja sykurtollinn. Er það rjett, sem getið var um við 2. umr. málsins, að sá tollur hefir ekki hækkað eins mikið og aðrir tollar, en hjer er um svo brýna nauðsynjavöru, og þó einkum þurrabúðarmanna, að ræða, að sanngjarnt virtist að tollurinn væri ekki hækkaður. Geri jeg einnig ráð fyrir, að á annan hátt megi afla nægra tekna til þess að komast hjá tekjuhalla.