17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Nefndin hefir ekki haldið fund til þess að bera sig saman um brtt. þær, sem fram eru komnar, og get jeg því ekki talað hjer fyrir hönd meiri hlutans. En fyrir mitt leyti og fleiri manna, sem jeg hefi átt tal við, get jeg sagt það, að jeg er algerlega á móti brtt. á þskj. 149, sem fellir burt, að upphæðinni til, fullan helming þeirra tolla, sem stjfrv. nær til. En hvað snertir till. hv. þm. Barð. (HK), eins og hún nú er borin fram í breyttri mynd, þannig, að hún nær aðeins til kornvaranna, þá mun jeg greiða henni atkvæði mitt. Er hjer aðeins um smávægilegt atriði að ræða fyrir landssjóð, líklega einar 15–18 þús. kr. á ári, en með því að samþykkja þessa brtt. næst viðurkenning, sem jeg vil gjarnan láta í ljós, sú, að vilja ekki hækka tollana á brýnustu lífsnauðsynjunum. En auðvitað hafa aðrir háttv. nefndarmenn óbundnar hendur í þessu, þar sem enginn fundur hefir verið haldinn um málið. En þessi er mín afstaða til brtt.