17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jakob Möller:

Það liggur í hlutarins eðli, að brtt. mínar verða bornar upp í tvennu lagi, en mjer þótti háttv. frsm. meiri hl. (JÞ) taka þær of mjög saman, þar sem hann talaði um, að hjer væri farið fram á að undanskilja fullan helming af tollinum. Það má vel vera, að þetta nemi svo miklu, en það er í raun og veru ekki nema í svip, þar sem í ráði er að hækka toll á sumum vörutegundum með sjerstöku frv. Það, sem um er að ræða, er því í mesta lagi 250 þús. kr., sem þessi tollhækkun lækkar um við brtt. mínar.

Jeg verð að furða mig á því, að hv. þm. Barð. (HK) skuli vera svo nægjusamur að sætta sig við, að kornvörur einar sjeu undanþegnar hækkuninni, því að það er augljóst, að þetta kemur í raun og veru að minstu gagni og munar minstu fyrir almenning. Hinsvegar eru margar aðrar vörur, sem eru engu síður nauðsynlegar fyrir menn til sjávar og sveita til þess að þeir geti stundað atvinnu sína og framfleytt sjer og sínum, sem eftir verða undir tollhækkuninni. Það er eins og hjer sje aðeins verið að reyna að bjarga við „útlitinu“.