17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Ágúst Flygenring:

Tillaga háttv. þm. Barð. (HK) friðar ekki mína samvisku; síður en svo. Jeg skil ekki, að nokkur geti greitt atkvæði með því að taka undan vörur, sem allir nota. Sanngjarnast er, að allir eigi þess kost að kaupa það, sem þörf þeirra krefur, og greiði þá heldur þessa tollhækkun. Aftur er herfilega ranglátt að leggja á þær vörur, sem mikill hluti landsmanna kemst hjá að nota, en eru öðrum ómissandi, svo sem kol og salt.

Jeg er samdóma hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um það, að rangt og óviðurkvæmilegt sje að leggja toll á vörur, sem notaðar eru til framleiðslu, og hefi jeg margbent á það í nefndinni. En þar sem ekki hefir verið bent á aðra leið en þessa til tekjuauka fyrir ríkissjóð, neyðir vandræðaástand ríkissjóðs oss til að samþykkja þetta frv. Ef nokkuð ætti að taka undan, væru það vörur, sem óhjákvæmilegt er að nota við framleiðsluna, en það hefir nú verið felt að fella þær undan. Það er svo herfilegt ósamræmi í því að vilja nú undanskilja þær vörur, sem allir nota jafnt, að jeg skil ekki, að nokkur skuli geta greitt því atkv.