21.02.1924
Neðri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

20. mál, kennaraskóli

Forsætisráðherra (SE):

Þetta frv. er borið fram samkv. eindregnum tilmælum hins góðkunna forstöðumanns kennaraskólans í Reykjavík. Frv. fer fram á, að námstíminn verði lengdur um einn mánuð, og ennfremur, að ensku verði bætt við sem námsgrein í skólanum, og vona jeg, að hv. deild verði þessu frv. vinveitt og hafi ekki á móti þessum breytingum, sem hjer er farið fram á. Markmiðið er, að kennaraefnum verði gerður kostur á meiri fræðslu en áður hefir verið, og þar sem laun kennara hafa verið bætt að mun, svo að þau má nú telja viðunanleg, vona jeg, að hv. deild geti orðið mjer sammála um, að ekki sje ósanngjarnt, þótt meiri kröfur verði eftirleiðis gerðar til mentunar kennaranna. Legg jeg svo til, að frv. þessu verði vísað til mentamálanefndar.