08.03.1924
Neðri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

20. mál, kennaraskóli

Fram. (Ásgeir Ásgeirsson):

Svo sem nál. ber með sjer, hefir mentmn. orðið sammála um að leggja til, að frv. þetta verði samþykt.

Það er kunnugt, að launakjör kennara hafa verið bætt mjög fyrir nokkru, og er þá auðsætt, að auka má um leið kröfurnar til mentunar kennaranna frá því, sem verið hefir. Um það var rætt í nefndinni, að gera annaðhvort tveggja ára unglingaskólanám eða gagnfræðapróf að inntökuskilyrði í kennaraskólann. En þar sem gagnfræðaskólarnir eru nú alveg fullir, en unglingaskólum landsins er ekki ennþá komið í gott horf, taldi nefndin ekki fært að lögbjóða það skipulag að þessu sinni; en það má fara nokkuð áleiðis, og er það gert í frv. Það er hert á inntökuskilyrðunum, og ef aukið er við mánaðarnámi á hverju ári, þá bætir það mjög úr.

Aðalatriðið í frv. er að auka ensku við skyldunámsgreinir skólans, og munu allir skilja, hverja þýðingu það muni hafa fyrir kennaramentun í landinu. Það er kunnugt, að þegar verslunarstjettin hjer á landi fór að leggja meiri stund á að nema ensku og þýsku, breyttust viðskiftin og fluttust til þeirra þjóða, sem meiri hagur var að skifta við. Þetta sama á við á andlega sviðinu. Ef kennaraefnin læra ensku, munu andlegu viðskiftin færast yfir á heppilegra svið. Hingað til hefir þeim verið kend danska ein erlendra mála, en það er ljóst, að áhrif frá Danmörku einni fullnægja ekki þörfum vorum.

Það stendur einnig svo sjerstaklega á um þetta frv., að það bakar ríkissjóði einungis örlítinn kostnað. Kennararnir við kennaraskólann eru fúsir á að bæta við sig mánaðar kensluskyldu án sjerstaks endurgjalds, til þess að þetta nái fram að ganga. Laun þeirra voru upphaflega miðuð við 6 mánaða kensluskyldu, og því ákveðin lægri en laun mentaskólakennara. Nú hefir 6 vikna námsskeiði verið bætt við kensluna, og nái þessi breyting að ganga fram, verður það 2½ mánuður, sem aukið er við upphaflega kenslutímann. Hjer er því orðið nokkuð misrjetti milli kennara við þessa skóla, auk þess sem það er mjög óheppilegt, að launin við kennaraskólann sjeu lægri en við mentaskólann, þar sem það hefir orðið til þess að kennaraskólinn missir af ágætum kennurum. En hvað sem því líður, er ekki farið fram á launahækkun í þessu sambandi. Það er farið fram á, að kennaramentunin sje aukin og bætt, og til þess vilja kennararnir leggja á sig mánaðarkenslu í viðbót, en gera enga kaupkröfu, vegna fjárhagsvandræða ríkissjóðs. Hjer er því farið fram á, að landið noti betur starfskrafta þessara manna. Nefndin telur rjett að verða við þessum óskum og vonar, að hv. deild geti líka fallist á það. Jeg leyfi mjer því að vænta þess, að frv. fái betri byr til 3. umr. en það fjekk til 2. umr. Skal jeg svo láta staðar numið, en verði í umræðunum óskað nánari upplýsinga, skulu þær fúslega gefnar.