10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

20. mál, kennaraskóli

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð. Jeg hafði hugsað mjer að sitja þegjandi við þessa umræðu. En ekki gat jeg varist undrunar, er jeg heyrði ræðu hv. þm. Borgf. (PO), og eitt var það í henni, sem kom mjer til að standa upp. Hv. þm. sagði, að hugsunarháttur sinn í máli þessu og öðrum menningarmálum væri í samræmi við skoðun manna í sveitunum. Jeg vil setja það í samband við það, sem sami hv. þm. sagði. fyr í ræðu sinni, er hann lagði áherslu á, að það eina, sem næðist við lengdan námstíma í kennaraskólanum, væri það, að nemendurnir „liðu við það“. Þessu vil jeg mótmæla. Jeg mótmæli því, að nemendur muni „líða við“ að fá fullkomnari mentun. Og jeg mótmæli því í öðru lagi, að þessi hugsunarháttur sje í samræmi við hugsunarhátt manna í sveitum landsins. Þeir munu alls ekki líta svo á, sem menn líði við það að fá betri mentun.