25.03.1924
Efri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

20. mál, kennaraskóli

Frsm (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg get að mestu leyti látið mjer nægja að vísa til nál. mentmn. um þessa breytingu á 3. og 4. gr. laga nr. 63, 1907, um kennaraskóla í Reykjavík. Jeg skal aðeins geta þess, að þegar athugað er, að lög þessi eru nú 17 ára gömul og hafa staðið allan þann tíma óbreytt að kalla má — aðeins var gerð á þeim smábreyting árið 1919 — þá er ekkert undarlegt, þó að nú sje farið fram á, að þeim sje breytt að nokkru, svo mjög sem tímarnir hafa breyst síðan þau voru sett. Hitt má virðast undarlegra, að ekki er farið fram á nema tvær breytingar, og er hvorug þeirra mjög stórvægileg.

Hingað til hefir skólinn aðeins starfað hálft árið, vetrarmisserið. Nú er farið fram á, að starfstíminn sje lengdur um einn mánuð. Þetta er gert samkvæmt óskum kennara skólans, og enda eðlilegt að heimta meira bæði af þeim og komandi alþýðukennurum, þar sem laun hvorratveggja hafa verið bætt að mun, bæði samkvæmt alm. launalögum og lögum um laun barnakennara.

Hinni breytingunni, sem frv. þetta fer fram á, fylgir sá mikli kostur, að gera á ensku að fastri námsgrein við skólann.

Önnur hlið þessa máls, og það ekki ómerkileg, er sú, að hvorugri breytingunni fylgja aukin útgjöld ríkissjóðs svo teljandi sje.

Í sambandi við það, að tekið er upp í frv. að enska skuli kend við skólann, má geta þess, að það er gert vegna þess að í gömlu lögunum er ákveðið, hvaða námsgreinir skuli kendar við skólann. Annars held jeg, að yfirleitt væri heppilegra að skipa slíkum atriðum með reglugerðum en lögum. Kosta breytingar ekki eins mikla fyrirhöfn með því móti.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en get eins og jeg tók fram í upphafi, vísað til nál. mentamn., svo og til nál. sömu nefndar í hv. Nd. Vænti jeg þess, að hv. deild samþykki frv. óbreytt.