25.03.1924
Efri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

20. mál, kennaraskóli

Guðmundur Ólafsson:

Jeg lít líkari augum á þetta mál og hv. 1. þm. Eyf. en hv. 1. landsk. þm. og frsm. Það er lítið að ræða um annað en aukinn kostnað. Það hefir að vísu verið reynt að gera það sennilegt, að ekki yrði kostnaðarauki að þessu. En jeg held jeg þekki þetta. Það er eins og vant er, þegar á að koma einhverju fram, sem hefir kostnað í för með sjer; þá er talað mörgum og fögrum orðum um, hversu gott og gagnlegt það sje, en ekkert gert úr kostnaðinum. Og svo eiga þeir, sem standa á móti slíku, að vera að vinna mjög ilt verk.

Hv. 1. landsk. þm. talaði um, að það hrygði sig, hversu lítinn skilning Alþingi hefði á gildi alþýðufræðslunnar, og það er nú máske von, að ólærðir menn eins og jeg hafi ekki mikinn skilning á slíkum hlutum. En mig hryggir þá ekki síður skilningsleysi hv. 1. landsk. þm. á fjárhagsástandi ríkissjóðs og þjóðarinnar yfir höfuð. En jeg held þó, að mjer sje óhætt að fullyrða, að þjóðin leggi fram eins mikið fje eins og hún getur til alþýðufræðslunnar. En þetta er kostnaðarsamara fyrir nemendur, og auk þess tel jeg víst, að það muni leiða af sjer aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, því auðvitað þarf svo síðar að hækka laun allra barnakennaranna. Og mjer finst það vera hlægilegt, þegar viðurkent er af öllum, að spara þurfi, að þá skuli þingið vera að burðast með slíkt örverpi sem þetta frv. En jeg veit hins vegar, að þetta stefnir í sömu átt og yfirleitt fjármálaspeki sú, sem hjer er ríkjandi, og því ekki til neins að vera að mæla á móti því. Jeg get ekki gert mikið úr því, hvað kennaraefni verði mikið betur mentuð þó að þetta komist á. Jeg býst að minsta kosti við, að það muni ekki vega upp á móti þeim aukna kostnaði, sem það hefir í för með sjer. Jeg verð því að vera á móti frv. þessu, og jeg býst ekki við, að ábyrgðin af því verði þyngri á mínu baki en hinna, sem fella allar sparnaðartillögur, sem koma fram á þinginu, en auka útgjöld ríkissjóðs að nauðsynjalausu hvenær sem þeim gefst færi til þess.