25.03.1924
Efri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

20. mál, kennaraskóli

Sigurður Eggerz:

Jeg vil aðeins benda á eina villukenningu, sem fram kom í ræðu hv. þm. Vestm., og hún er sú, að menningarástandið í landinu hafi verið betra áður en barnaskólarnir komu. En þetta er hreinasti misskilningur. Mönnum hættir svo við að sjá það liðna, sem lengra er frá, í gyllingum. Jeg skal að vísu játa það, að það hafa altaf verið til einhver heimili, sem hafa getað mentað börn sín sjálf, og ef til vill betur en nokkrir skólar. Og það hafa líka verið til á öllum tímum menn, sem hafa haft svo mikinn áhuga á að læra, að þeir hafa yfirunnið alla örðugleika og mentað sig sjálfir, og það oft sjerstaklega vel. En ef litið er á ástandið yfirleitt bæði fyr og nú, þá leynir það sjer ekki, að um miklar framfarir er að ræða.

Hvað langt er síðan að leita varð með logandi ljósi að mönnum, sem væru færir um að vera hreppstjórar eða oddvitar, en nú er alstaðar nóg af mönnum, sem færir eru til hvaða starfa sem er. Og ef ætti að kasta barnafræðslunni yfir á heimilin aftur, þá er það að athuga, að það yrðu aðeins efnuðustu mennirnir, sem gætu mentað börn sín, en fátæka fólkið væri útilokað frá því. Það virðist því varla tiltækilegt að gera slíkt.