17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

18. mál, afhending á landi til kirkjugarðs í Reykjavík

Frsm. (Jónas Jónsson):

Mál þetta lá fyrir þessari hv. deild í fyrra og mun þannig til komið, að árlega komu fram kröfur frá sóknarnefnd Reykjavíkur um, að landið legði fram fje til kirkjugarðsins hjer. Fjvn. þessarar hv. deildar komst að þeirri niðurstöðu í fyrra, að kirkjugarðurinn ætti að bera sig sjálfur fjárhagslega að svo miklu leyti, sem mögulegt væri. Bar hún því fram frv. um að hækka legkaupið. Komst frv. út úr þessari deild og var nær því útrætt í hv. Nd., er þingi sleit. Lagði svo stjórnin frv. fyrir þingið nú eins og Ed. gekk frá því í fyrra, en hv. Nd. lækkaði legkaupið. Hefir allshn. ekki getað fallist á ástæðurnar fyrir lækkun þessari, því að útfararkostnaður er altaf svo hár hjer, að lítið sem ekkert munar um þessa lækkun á legkaupinu. Hefir nefndin því lagt til, að legkaupið verði fært aftur til hins sama og það var í frv. stjórnarinnar.

Þó að mál þetta sje ekki stórmál, stefnir það þó í rjetta átt, þá átt, að ljetta af landinu þeim gjöldum, sem ekki er ástæða til, að það beri, og jafnframt, að kirkjurnar verði ekki baggi á landssjóði.